148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:07]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er ýmislegt sem þarf að ræða varðandi þessa þingsályktunartillögu þrátt fyrir, eins og ég sagði í andsvörum við ráðherra, að ég hafi lesið hana yfir og sé sæmilega sáttur við niðurstöður hennar. Þetta er tiltölulega hefðbundin upptaka á EES-máli og er verið að samþykkja fyrir okkar hönd. Það liggur ljóst fyrir að ef við samþykkjum þetta ekki hér á þinginu núna getur þetta hvorki tekið gildi í Noregi né í Liechtenstein. Það er töluvert áhyggjuefni. Það er ein af fjölmörgum ástæðum fyrir því að málið á að mínu mati að fara mjög hratt í gegn, alla vega þingsályktunartillagan. Ég set mun meiri fyrirvara við frumvarpið en það er að hluta til, eins og ég nefndi áðan, vegna þess að ég hef ekki enn náð að klára að lesa það.

Forsögu málsins rakti ég aðeins um daginn. Persónuverndartilskipunin hefur verið í þróun frá 2012 og hefur á þeim tíma orðið að einu stærsta máli Evrópusambandsins frá því að ég fór að fylgjast eitthvað með evrópskri pólitík. Þetta er risastór reglugerð, var mörg ár í þróun. Það er meira að segja til, og ég efast um að það sé tilfellið með almennar reglugerðir í Evrópusambandinu, heimildarmynd um hvernig þessi reglugerð varð til og þróun hennar í gegnum Evrópuþingið. Það sýnir hve mikil áhersla er lögð á að gera þetta rétt enda er um að ræða gríðarlega mikið framfaraskref fyrir persónuvernd og persónufriðhelgi í gervallri Evrópu og útöngum hennar, og í raun í fleiri löndum. Rætt hefur verið um það á undanförnum dögum að fyrirtæki í Bandaríkjunum, Indlandi og Kína og víðar þurfi að laga sig að evrópsku persónuverndarlöggjöfinni til þess hreinlega að geta haldið áfram að stunda viðskipti við Evrópulönd. Þetta er kannski diplómasía af öðru tagi en við eigum að venjast en samt, kannski eitthvað sem stórveldi hafa gert í gegnum tíðina og ætti ekki að koma okkur á óvart að Evrópusambandið brúki slíkar aðferðir við og við.

Það er eins og ég segi eðlilegt að afgreiða þessa þingsályktunartillögu án stórkostlegra athugasemda. Í sjálfu sér er þetta einföld heimild. Vandamálin eru líklegri til að koma upp í frumvarpinu þar sem reglugerðin er útfærð. Mér finnst persónulega alveg ótrúlega skrýtið að ríkisstjórn flokka sem hafa sífellt og stöðugt verið að benda á að framsalsheimildir séu í trássi við stjórnarskrá, þrátt fyrir að þær séu það ekki, samþykki að fara þessa tilteknu leið við útfærsluna. Ef ég hefði nægan tíma er ég með haug af spurningum sem ég gæti spurt ráðherra að. Ég velti því sérstaklega fyrir mér hvers vegna þessi leið var valin og hverjar hinar leiðirnar voru. Við upptöku EES-gerða eru yfirleitt þrír útfærsluvalmöguleikar í samskiptum stofnana varðandi regluverkið. Það er að samlagast evrópsku stofnuninni sem hér er með einhverjum hætti verið að gera, sem sagt beinlínis verið að framselja vald til Evrópusambandsins. Annar valkostur er að valdið farið til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Sá þriðji er að þetta endi hjá viðeigandi stofnun í hverju EES-ríki fyrir sig, þá Persónuvernd í þessu tilfelli.

Á bls. 10 í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„EFTA-ríkin ræddu fjóra mismunandi valkosti við aðlögun reglugerðarinnar ...“

Svo er haldið áfram en aldrei útskýrt hverjir valkostirnir fjórir eru. Þetta er eitt af því sem ég hefði viljað skilja ögn betur.

Einnig eru nokkur vafaatriði varðandi það hvernig samspilið á eftir að verða. Ég fór svolítið út í það í andsvörum við ráðherra hér áðan, nákvæmlega hvar skilin muni verða. Ég fékk að vísu ágætissvör við því en ég held engu að síður að teikna þurfi aðeins skýrari mynd, ekki síst fyrir þá þingnefnd sem kemur til með að fylgja þingsályktunartillögunni úr hlaði.

Ég hef í raun afskaplega litlu við þetta að bæta að sinni. Þetta er svo rosalega stöðluð nálgun. Þó svo að ég geti spurt margra spurninga kláraði ég satt að segja margar þeirra í utanríkismálanefnd þegar málið var til umræðu þar í gær, ef mig misminnir ekki. Dagarnir eru allir farnir að renna saman. En stóru póstarnir eru eftir sem áður í frumvarpinu og ég býst við að umræðan um það verði töluvert lengri, flóknari og ítarlegri.