148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa síðari spurningu. Hvernig hefði þingmaðurinn viljað haga málum? Já, hæstv. ráðherra, ég held að það hefði mögulega farið betur á því að taka reglugerðina hráa eins og hún kom af kúnni, til þess að minnka flækjustigið. Til þess að það væri alveg á hreinu að vandað væri til verka frekar en að hafa það sem við fengum í hendur. Þar er flækjustig vegna þess hversu hratt er unnið. Það virðist einhvern veginn vera, kannski ekki fálmkennt en það er ákveðinn hraði á málinu, eins og málið kemur frá hæstv. dómsmálaráðherra, að maður getur ekki alveg treyst því að nægilega sé vandað til verka. Komið hefur fram að til þess að maður geti skilið ákveðin ákvæði þessa frumvarps, og hæstv. dómsmálaráðherra hefur nú þegar verið bent á það, þarf viðkomandi að sitja með þrjú skjöl fyrir framan sig til að bera þau saman því að ekki er skýrt í ákvæðunum hvað fjallað er um. Í umræddu frumvarpi er um að ræða refsiheimildir, álagningu stjórnvaldssekta sem nema 2,4 milljörðum. Það eru slík ákvæði sem eru það íþyngjandi að það er algerlega ótækt að þau séu eins óljós og þetta frumvarp ber með sér.

En reglugerðin er góðra gjalda verð. Málið er gott. Við eigum að sjálfsögðu að greiða því leið. En enn og aftur óska ég eftir (Forseti hringir.) að ráðherrann vandi sig.