148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lokafjárlög 2016.

49. mál
[19:42]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum í 2. umr. frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2016 og fyrirliggjandi nefndarálit hv. fjárlaganefndar, sem hv. þingmaður og varaformaður nefndarinnar, Haraldur Benediktsson, fór ágætlega yfir í framsögu sinni.

Í þessum lokafjárlögum erum við með útgjöld einstakra liða þannig sett fram að gagnlegt er til þess að setja sig inn í forsendur ríkisreiknings og samanburð á útgjaldaheimildum ársins 2016 og útgjöldum fjárlagaliða fyrir sama ár. Í fylgiskjölum frumvarpsins er yfirlit um breytingar á fjárveitingum ársins 2017 vegna afgangsheimilda og umframgjalda í árslok 2016 og eru 19,9 milljarðar kr. fluttir til ársins 2017.

Í yfirliti 2 með frumvarpinu er svo uppruni fjárheimilda ársins 2016, reikningsfærð gjöld og staða í árslok, eða eins og fram kemur í töflu í nefndaráliti, sú staða er sú staða í árslok. Gjöld umfram heimildir eru 13,6 milljarðar kr. og mismunurinn á því er síðan fluttur á milli ára og felldur niður í árslok, 33,5 milljarðar eru felldir niður í árslok, svokallaðar umframheimildir.

Þess má geta að á árunum fyrir bankahrun var umfang á flutningi innstæðna milli ára það mikið að nettótalan náði meira en 5% af fjárlögum hvers árs. Var það gagnrýnt bæði af Ríkisendurskoðun og fjárlaganefndum þess tíma hversu mikið það umfang væri. Eftir hrun dró úr inneignum og nú er lagt til að fluttar verði heimildir sem nema 2% af fjárlögum.

Þær tölur sem við greinum hér eru þannig tölur í samræmi við fjárlög, fjáraukalög og niðurstöður ríkisreiknings. Segja má að þær eftiráheimildir, ef orða má með þeim hætti, sem má sjá í þeirri töflu sem fram kemur í nefndaráliti, 1.251 millj. kr. sem koma til vegna þess að markaðar tekjur og aðrar tekjur stofnana reynast hærri en áætlað var í fjárlögum, séu birtingarmynd þess fyrirkomulags sem við erum að reyna að breyta. Vísa ég þá til frumvarps þess sem við samþykktum á dögunum með samþykkt á lagabreytingum á ýmsum lögum um markaðar tekjur.

Þar sem markmiðið með því er m.a. að komast út úr því fyrirkomulagi að veita eftiráheimildir ætla ég að vísa í það sem sagt er í nefndaráliti fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Það samræmist ekki fjármálastjórn ramma fjárlagagerðar, sem miðar að því að halda útgjöldum innan fyrir fram ákveðins útgjaldaramma, að fjárheimildum stofnana sé breytt eftir á í lokafjárlögum út frá reikningsuppgjöri markaðra tekna liðins árs í stað þess að þær haldist í hendur við þá áætlanagerð og forgangsröðun sem ákveðin var í fjárlögum.“

Eitt af meginmarkmiðum og helstu röksemdum fyrir framlagningu þess frumvarps, sem tengist fjárstýringu ríkisins, eru að ákvarðanir um ráðstöfun á ríkistekjum verða einungis teknar í fjárlögum og fjáraukalögum og að eftiráheimildir í lokafjárlögum leggist þar með af.

Lokafjárlög með því sniði sem við ræðum hér staðfesta niðurstöðu ríkisreiknings og segja til um flutning á innstæðum og skuldum milli ára og eru nú lögð fram, eins og ég sagði, í síðasta sinn. Þau hafa verið álögð allt frá árinu 1997 með lögum frá því ári, nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Við tekur frumvarp í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, um samþykkt ríkisreiknings, þar sem áfram verður kveðið á um flutning innstæðna og skulda milli ára.

En í 58. gr. laga um opinber fjármál segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal leggja fram frumvarp á Alþingi til staðfestingar ríkisreikningi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir að fjallað skuli um niðurstöðutölur reikningsins og gerð grein fyrir frávikum tekna, útgjalda og lánamála frá samþykktum heimildum Alþingis. En frumvarpið nú, sem verður flutt hér í hinsta sinn á þessu formi, byggir á bráðabirgðaákvæðum laga um opinber fjármál. Ætla ég að vísa aftur í lögin, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 68. gr. skulu frumvörp til fjáraukalaga og lokafjárlaga til og með árinu 2016 fylgja ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997. Sama gildir um ársreikninga ríkisaðila til og með árinu 2016.“

Ég held, virðulegi forseti, að upphaflega hafi ætlunin verið að þetta myndi fylgjast að þótt það hafi ekki náðst.

Því til viðbótar má segja að þrátt fyrir að gert hafi verið ráð fyrir því að leggja skuli lokafjárlagafrumvarp fram samhliða útgáfu ríkisreiknings, og þá ítreka ég það sem ég sagði áðan, hefur það nær aldrei orðið raunin, en mislangur tími þar á milli, ekki heldur nú þegar frumvarpið var lagt fram í desember þar sem ríkisreikningur 2016 var fullgerður sex mánuðum fyrr.

Gera má því ráð fyrir því framvegis að úr því verði bætt á þann hátt að frumvarp um samþykkt ríkisreiknings verði lagt fram samhliða framlagningu á reikningnum sjálfum.

Það verklag hefur tíðkast á undanförnum árum að vinnuhópur á vegum fjárlaganefndar hefur fundað með embættismönnum fjármálaráðuneytisins og hefur fjárlaganefndin með því vinnufyrirkomulagi nýtt frumvarpið til þess að afla ítarlegri skýringa vegna tiltekinna frávika gjalda og fjárheimilda. Í staðinn má segja eða ætla að með nýjum lögum komi virkara eftirlit með framkvæmd fjárlaga sem er ríkur þáttur í lögunum um opinber fjármál og fjallað um í IV. kafla í þeim lögum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í IV. kafla um framkvæmd fjárlaga eru ákvæði sem ætlað er að stuðla að virkara eftirliti með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár og leiða til aukins aga við framkvæmd fjárlaga með því að ábyrgð og skyldur á framkvæmd fjárlaga eru skýrðar. Lögð er áhersla á stefnumótun ríkisaðila og aukin áhersla lögð á eftirlit hvers ráðherra með útgjaldaþróun málaflokka og ábyrgð forstöðumanna á rekstri ríkisaðila.“

Þetta verklag hv. fjárlaganefndar var einnig viðhaft nú og aflað ítarlegra skýringa vegna tiltekinna frávika gjalda og fjárheimilda og farið yfir það, eins og segir í nefndaráliti. Þá var farið yfir árslokastöðu og tillögur um niðurfellingar heimilda og leitað sérstaklega skýringa á stöðu þar sem frávik voru veruleg.

Nokkrar ábendingar koma fram í álitinu og hv. framsögumaður og varaformaður nefndarinnar, Haraldur Benediktsson, rakti það í framsögu sinni. Ég vil vekja sérstaklega athygli á því að stjórnvöld verða að bæta úr því misræmi þegar útgjöld virðast ekki bókfærð á réttan kostnaðarstað, eða viðfangsefni, þannig að skipting fjárheimilda er ekki í samræmi við útgjöldin.

Um þann lið sem hv. framsögumaður fór yfir og kemur jafnframt fram í nefndarálitinu og lýtur að slíku misvægi milli einstakra viðfangsefna er þeim tilmælum beint til ráðuneyta að huga sérstaklega að slíku misræmi og sjá til þess að það verði leiðrétt til framtíðar. Má segja að þetta lúti að hluta að því sem við myndum kalla skilvirkara bókhaldi og þar með fjárstýringu þannig að kostnaður lendi þar sem hann á heima.

Hv. framsögumaður kom jafnframt inn á að nefndinni sé kunnugt um að gangskör hafi verið gerð að þessu, m.a. í velferðarráðuneytinu, og höfð forganga um leiðréttingar í þessa veru innan ársins 2017. Það er vel. Hv. fjárlaganefnd vonast til að þess sjái stað í fjárlögum hvers árs til frambúðar.

Eins og ég sagði áðan og hefur komið fram, m.a. í nefndaráliti, leggjum við þetta fram í síðasta sinn. Ég vil þakka hv. fjárlaganefnd og nefndarmönnum fyrir vinnuframlag í þessu verklagi nefndarinnar við úrvinnslu málsins. Haldnir voru vinnufundir og farið yfir árslokastöður og helstu frávik könnuð. Ég þakka það vinnuframlag og samstöðu í nefndinni. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að frumvarpið verði samþykkt svo búið og óbreytt.