148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lokafjárlög 2016.

49. mál
[19:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að tjá mig um lokafjárlög fyrir árið 2016.

Það er alltaf svolítið skondið þegar maður ræðir gömul mál svona löngu síðar og kannski er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér að fólk takist á eins og oft hefur gerst þó að fjárlaganefnd hafi iðulega komist sameiginlega að niðurstöðu og lagt þau fram sökum þess að hér er verið að fjalla um nokkuð sem er hvort sem er búið og gert. Síðan hafa verið ríkisstjórnarskipti og kosningar nokkuð ört og er litlu eða engu hægt að breyta.

Við höfum þó gert það í gegnum tíðina. Við höfum fellt niður eitt og annað og staðið saman að því. Það hefur snert stofnanir sem átt hafa í erfiðleikum og ekki getað undið ofan af þeim, eins og kemur fram í þessu áliti. Það eru m.a. sýslumenn, sem ég ætla ræða aðeins betur á eftir.

Frá því að ég tók sæti í fjárlaganefnd 2013 höfum við verið nokkuð samhent í því að reyna að lagfæra og breyta og bæta hvernig ákvarðanir eru teknar. Við höfum fram til þessa, í þeim álitum sem fram hafa komið um lokafjárlög, gagnrýnt hvernig hlutir eru færðir. Og eins og hér er áfram ítrekað við ráðuneyti vantar að því er virðist alltaf í ríkisbókhaldið einhvers konar samtímanálgun, samtímafærslu, þannig að ekki myndist mismunur á milli liða, eins og hér er nefnt varðandi heilsugæslusviðið sem er jákvætt um 300 milljónir en halli er á sjúkrasviði. Það er eitt af því ég hef bent á í hvert skipti sem ég fjalla um lokafjárlög. Það er að lagast, það hefur breyst. En við í fjárlaganefnd þurfum að vera afskaplega mikið á tánum til þess að passa það, því að þetta getur átt við um gjaldaliði og inneignir og gjaldfærslur og annað slíkt. Meira að segja má segja að lokafjárlögin hafi á köflum hreinlega verið notuð sem fjáraukalög. Það er nánast hægt að segja það. Það er eitt af því sem nefndin hefur verið nokkuð samhent um að reyna að breyta.

Þó að þetta sé í síðasta sinn sem lokafjárlög eru lögð fram með þessum hætti er eftirfylgnin í okkar höndum. Það er líka það sem við stöndum frammi fyrir og ég viðraði þegar við ræddum lögin um opinber fjármál; þá fáum við bara inn frumvarp til samþykktar um ríkisreikning. Við staðfestum það þar. Við höfum getað tekið lokafjárlögin inn í nefnd og við höfum getað gert breytingar. Við höfum sem þing getað gert eitthvað með það, en nú verður niðurstaðan tilkynnt í þinginu.

Ef við tölum um að valdið færist frá þingmönnum og allt það, þá er hér um þúsundir færslna að ræða sem við höfum ekkert um að segja í því ferli. Af því að við erum enn að smíða ferli um opinber fjármál held ég að við þurfum að fylgja því vel eftir í skýrslu ráðherra og í öðru því sem við fáum inn á borð til okkar sem fylgir hinum nýju lögum og velta því fyrir okkur hvernig við getum náð utan um það og haft eitthvað um það að segja.

Það er kannski það sem ég hef verið að velta fyrir mér; þó að við séum að fjalla hér um lokafjárlög og eitthvað sem er löngu liðið er alltaf bagalegt að standa frammi fyrir því að þetta er orðinn hlutur. En þá höfum við samt haft tækifæri til að breyta ef við höfum talið ástæðu til. Við gerðum það í sameiningu þegar við löguðum stöðu heilsugæslunnar. Við löguðum stöðu sýslumanna. Þingið taldi það skipta máli. Ég velti fyrir mér hvort við getum komið að þessum málum með einhverjum öðrum hætti en beinlínis í gegnum fjárlög ef eitthvað slíkt kemur upp á sem ekki er hægt að vinna úr með öðrum hætti, en sem lögin eiga vissulega að ná yfir. Það er nokkuð sem við þurfum að læra betur inn á í meðförum og umfjöllun um lagapakka um opinber fjármál.

Það er ekkert öðruvísi með þessi lokafjárlög. Það er pínulítið snúið og ekki auðvelt fyrir þingið að átta sig á textunum sem eru í greinunum varðandi lokafjárlögin. Það er ekkert auðvelt að átta sig á því hvað flyst á milli ára, t.d. yfirlit yfir ókláruð verkefni, maður sér bara plúsa og mínusa flytjast á milli ára á sömu liðunum en ekki endilega skýringar á því.

Við í nefndinni fórum hins vegar í töluverða vinnu með starfsmönnum okkar, sem ber að þakka fyrir vel unnin störf í þessu samhengi sem og svo mörgu öðru, ásamt því að vinna með ráðuneytunum og fá svör við spurningum og útskýringar á því sem við áttuðum okkur ekki alveg á. Eins og framsögumaður rakti ágætlega fengum við yfirlit nokkuð yfir það þannig að við vitum hvað er að baki því.

Ég hef talað töluvert um einstaka mál eða stofnanir sem hér eru undir, Vegagerðina og Ofanflóðasjóð, þar sem útgjöldin eru innan fjárheimilda árum saman. Ég hef gagnrýnt það og geri það enn af því að ég vil að við heimilum útgreiðslur til þess að sinna þeim verkefnum sem eru til staðar. Verið hefur einhver tregða til að nýta þær heimildir sem sjóðurinn á. Mér þykir það bagalegt, því að við erum að tala um öryggismál í því sambandi. Það er eitt af því sem við þurfum að ræða í fjárlaganefnd og fá ráðuneytið á okkar fund og taka stöðuna til næstu fimm ára á meðan þessi ríkisfjármálaáætlun lifir, og kanna hvað það sér fyrir sér varðandi Ofanflóðasjóð og hver verkefnin eru fram undan.

Við þurfum að yfirfara og endurskoða verklag í tengslum við flutning heimilda umframgjalda milli ára. Ég held að við þurfum að finna út hvar það er sem við getum gert það, á hvaða tímapunkti við getum gripið inn í það. Ráðherrar eiga að flytja okkur skýrslur. Nú fer sú fyrsta að líta dagsins ljós, vænti ég. Ætli við fáum þær ekki í upphafi þings og ef nefndin fundar fyrir upphaf þings gætu það verið fyrstu verkefnin.

Mig langaði aðeins að ræða um sýslumennina af því að við tökum þá sérstaklega fyrir í nefndarálitinu. Ég hafði skoðun á því þegar það mál var rætt af þáverandi hæstv. innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni. Það var allur þingsalurinn nema ég — það er eiginlegt vont að þurfa að segja að það hefur raungerst sem ég sagði og hafði áhyggjur af þá, þ.e. að verkefnaflutningurinn myndi ekki ganga eftir. Sýslumannsembættin sitja enn sum hver í of stóru húsnæði o.s.frv. Mér hefur þótt miður að segja að verkefnaflutningurinn hafi ekki gengið eftir. Þetta eru opinber störf í hinum dreifðu byggðum sem maður vill ekki fækka.

Nú ætlar Ríkisendurskoðun að gera úttekt á þeirri sameiningu þegar sýslumannsembættunum var fækkað úr 24 í 9 og löggæslan aðskilin. Það verður mjög áhugavert að sjá hvort þeir telja að markmið með sameiningunni hafi náðst, því að verið hefur neikvæður höfuðstóll meira eða minna, umfram fjárheimildir frá því þau voru stofnuð 1. janúar 2015. Ríkisendurskoðun ætlar líka að skoða hvaða leiðir eru mögulegar til fjárhagslegra úrbóta og á frumkvæði að því. Stofnunin ætlar að fara vel yfir lög og reglugerðir sem tengjast sýslumönnum, skipulagi og fjármálum embættanna, verkefnum, verklagsreglum og eftirfylgni.

Ég held að við þurfum að fá skýrsluna til okkar þegar hún liggur fyrir, því að þetta er nokkuð sem verið hefur töluvert á okkar borði.

Ég vona það að ekki líði langur tími þangað til það liggur fyrir, að það geti verið eitt af því sem við getum tekið fyrir á þessu ári. Ég vona það svo sannarlega. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt til framtíðar og fyrir hinar dreifðu byggðir.

Ég ætla að þakka formanni fjárlaganefndar fyrir vinnuna og segja að það er mikilvægt að nefndin standi öll að svona máli. Þó að við höfum ekki gert tillögur að neinum breytingum að þessu sinni skiptir máli að geta tekið höndum saman um eitthvað þó að þetta sé búið og gert. Það hefðu getað komið fram tillögur um breytingar. En það gerðist ekki.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þessu lokið og þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir samstarfið í þessu sem og öðru. Við áttum langan og góðan fund og fleiri en einn og fórum í gegnum þetta lið fyrir lið til þess að reyna að átta okkur hvort við vildum leggja til einhverjar breytingar.