148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lokafjárlög 2016.

49. mál
[20:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara rifja það upp hér, af því að ég var lengi í fjárlaganefnd, að ég man ekki eftir nema að einu sinni hafi öll nefndin verið á lokafjárlögum, einmitt vegna þess að lokafjárlög eru til að staðfesta ríkisreikning. Það komu upp ástæður til þess að fara í halaklippingar þegar við vorum að fara yfir í nýtt fyrirkomulag sem tengdist lögum um opinber fjármál. Það var möguleiki á því og við gerðum það á sínum tíma.

Annars hefur nefndin sem betur fer getað verið sammála um lokafjárlög, enda eru þau til þess að staðfesta ríkisreikning. Við erum búin að fara í umræður og tillögugerð og breytingartillögugerð og takast á um allt ferlið fram að því. Nú stöndum við hér vorið 2018 og erum að fjalla um lokafjárlög fyrir árið 2016. Enn og aftur líður langur tími, of langur tími finnst mér, frá því staðfestingin kemur á ríkisreikningnum frá því hann kemur fram.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hv. fjárlaganefnd hafi ekki einmitt gert við það athugasemdir aftur hversu langur tími líður þarna á milli og kannski forvitnast um það í leiðinni hvaða áform eru uppi um að kippa þessu vinnulagi í lag.