148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[21:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka fram að ég styð frumvarpið af heilum hug, þ.e. þann góða hug sem býr að baki því og þá niðurstöðu sem vonandi verður af þessari lagasetningu, þ.e. að framboð á líffærum til líffæragjafa aukist og að Íslendingar geti þá orðið meira en þiggjendur í því efni og þurfi ekki alltaf að búast við að líffæri komi annars staðar frá. Það skiptir miklu máli í þessu samhengi því að langstærsti hluti þeirra líffæra sem eru notuð til líffæragjafa fyrir Íslendinga koma annars staðar frá, og eins og kom fram hjá umsagnaraðilum og gestum nefndarinnar er framboð á líffærum til líffæragjafa, ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu, allt of lítið. Því er markmið frumvarpsins afar jákvætt.

Það sem fyrirvari minn hins vegar snýr að er að ég hefði talið, eins og ég raunar gat um við 1. umr., vera flöt á því að reyna með einhverjum hætti að gera gangskör að því að afla upplýsts samþykkis í meira mæli en nú er gert og þá að afla upplýsts samþykkis áður en kemur yfirleitt að þeim skelfilegu atburðum sem verða til þess að líffæri standa til boða. Þetta er hægt að gera með ýmsum hætti. Í íslenska lagaumhverfinu væri til að mynda hægt að gera það með því að bjóða þeim sem sækja um varanlegt ökuskírteini að undirrita yfirlýsingu þar að lútandi þegar þar að kemur hvort þeir vilji vera líffæragjafar.

Það hins vegar myndi ekki endilega taka í burtu efni þessa frumvarps. Við gætum eftir sem áður haft þá klásúlu inni að það væri ætlað samþykki engu að síður, en við myndum með slíku komast hjá, alla vega einhverjum, þeim erfiðleikum sem koma oft upp þegar slík samtöl fara fram við aðstandendur, oft við afar erfiðar og krefjandi aðstæður, þar sem fólk stendur frammi fyrir því að missa ástvin. Það myndi þá hjálpa mikið að í mörgum tilfellum lægi hinn raunverulegi vilji hins deyjandi manns fyrir og þyrfti þess vegna ekki í raun að spyrja aðstandendur. Þetta væri hægt að gera í tengslum við varanlegt bílpróf vegna þess að á Íslandi fær enginn varanlegt bílpróf fyrr en hann er orðinn sjálfráða, þ.e. við 18 ára aldur, og þess vegna kæmumst við fram hjá þeim vanda sem er tilgreindur ágætlega í nefndaráliti nefndarinnar varðandi ósjálfráða einstaklinga.

Hin nöturlega staðreynd er náttúrlega sú að í nútímasamfélagi eru slys í rauninni algengasta ástæðan fyrir því að óvænt framboð verður á líffærum. Þar eru sennilega bílslys langhæst í röðinni. Því væri að þessu leyti til ákveðið forvarnagildi í því að fá þá sem fá varanlegt ökuskírteini til að undirrita slíka yfirlýsingu, eða ekki, eða að minnsta kosti bjóða upp á það. Sum af nágrannaríkjum okkar og t.d. mörg ríki í Bandaríkjunum hafa farið þessa leið með ágætum árangri og þannig tryggt að framboðið á líffærum, að minnsta kosti úr slysum, nýtist. Á sorglega endanum, hafandi verið við þær aðstæður og séð þá angist sem aðstandendur ganga í gegnum á slíkum stundum, er einmitt það að geta gefið líffæri og vita að hinn látni hafi viljað gefa líffæri ákveðið ljós í myrkrinu fyrir aðstandendur á erfiðum stundum.

Ég læt þetta duga um að útskýra fyrirvara minn, herra forseti, en lýsi eftir sem áður yfir fullum stuðningi við frumvarpið.