148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:56]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Sá þingvetur sem nú er senn að líða er merkilegur fyrir margra hluta sakir. Kosningar í annað sinn í október og fjárlög fyrir vikið unnin á skemmri tíma en ella. Ríkisstjórn samsett með þeim hætti að tíðindum sætir og Alþingi hélt rakarastofudag í kjölfar #meetoo-byltingarinnar fyrst þjóðþinga.

Ríkisstjórnin hefur setið í rúmlega hálft ár og fjármálaáætlunin sem hún hefur lagt fram ber þess skýr merki á hvaða vegferð hún er. Framlög til heilbrigðismála eru stóraukin, aukningin losar 20% á tímabili áætlunarinnar, þ.e. um 180 milljarða. Bygging Landspítala við Hringbraut er fjármögnuð og gert verður stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Á næstu fimm árum er stefnt að því að greiðsluþátttaka sjúklinga lækki jafnt og þétt og nái sömu viðmiðum og í hinum norrænu velferðarríkjunum. Sú vegferð hófst strax um áramót með 500 milljóna framlagi til aukinnar niðurgreiðslu tannlæknaþjónustu fyrir aldraða og öryrkja. Fleiri skref verða stigin á næstu misserum.

Nýlega var stofnuð Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu. Ríkisstjórnin vill með þeirri aðgerð efla heilsugæsluna. Með þessu skrefi verður hægt að efla menntun hjúkrunarfræðinga, efla rannsóknastarf og fjölga námsstöðum í heimilislækningum, allt skref sem lengi hefur verið talað um en er nú hrint í framkvæmd.

Stóraukin framlög til velferðarmála með 6 milljarða innspýtingu á ári í almannatryggingakerfið munu bæta hag öryrkja. Þá hafa atvinnuleysisbætur þegar verið hækkaðar. Hámarksupphæðir í fæðingarorlofi voru hækkaðar um sl. áramót og næstu skref verða lenging fæðingarorlofs og frekari hækkun fjárframlaga. Sú vegferð verður farin í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Tekjuöflun ríkissjóðs og hvernig skattbyrðinni er dreift þarfnast sífelldrar endurskoðunar. Við gerð fjárlaga var stigið skref til að hækka skatta á fjármagn, jafnhliða því að afsláttur vegna minni fjármagnstekna var aukinn. Þannig eru byrðar fluttar á þá sem eiga fjármagn, en ein helsta gagnrýnin á skiptingu auðs í landinu hefur einmitt verið á það hversu lítið fjármagnseigendur hafa lagt af mörkum. Grænir skattar hafa einnig verið hækkaðir og áfram verður haldið á þeirri braut. Þá mun gistináttagjald renna til sveitarfélaganna, sem er fyrsti nýi tekjustofn þeirra um langt skeið. Með því er komið til móts við kröfur sveitarfélaganna um tekjur af ferðaþjónustunni. Þetta mun skipta miklu máli fyrir sveitarfélögin, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Ríkisstjórnin hefur einnig stuðlað að eflingu strandveiða sem hafa mest áhrif í hinum dreifðu byggðum. Mikilvægt er að endurákvörðun veiðigjalda nýtist litlum og meðalstórum útgerðum best, með sérstökum afslætti, og hjálpi þannig til við að hindra að samþjöppun í greininni verði of mikil. Mikilvægt er sömuleiðis að álagning gjaldanna verði færð nær í rauntíma og tryggt að gjöldin verði betur afkomutengd.

Sú innspýting sem fram undan er í innviðauppbyggingu mun koma á heppilegum tíma fyrir hagkerfið sem hefur nú hægt á mesta vextinum í kjölfar stóraukningar í ferðaþjónustu.

Stórframkvæmdir í vegamálum vegna uppbyggingar Landspítala og fleiri verkefna í heilbrigðiskerfinu munu hjálpa við að halda stöðugu atvinnustigi.

Oft er talað um að Íslendingar séu ein stór fjölskylda, hagsmunir okkar allra séu í grunninn svipaðir og einsleitni samfélagsins mikil. Í vel heppnuðum fjölskyldum er hlustað á sjónarmið allra og öllum hleypt að borðinu.

Vinstri græn hafa verið gagnrýnd fyrir að taka þátt í stjórnarsamstarfi. Við lítum hins vegar þannig á að með þátttökunni öxlum við ábyrgð, tökum að okkur að bera hluta byrðanna og hafa áhrif á alla ákvarðanatöku.

Góðir landsmenn. Samfélag er samsett úr mismunandi hópum og sjónarmiðum. Alþingi endurspeglar þann raunveruleika nú betur en oftast áður. Það er hlutverk okkar allra að hlusta eftir mismunandi röddum, líka þeim sem við kunnum að vera ósammála, og komast í sameiningu að sanngjarnri niðurstöðu. Þannig byggjum við samfélag sem við getum öll kallað okkar.