148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:25]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Vorið er gengið í garð með fyrirheit um gróðurríkt sumar og yl í lofti. Ungt fólk fagnar um þessar mundir áföngum í framhalds- og háskólum, bændur yrkja jörðina, húseigendur stússa í görðum sínum, börn fæðast í heiminn, trillukarlar róa til fiskjar, íþróttafólk tekur kipp úti við. Útgerðin kvartar. Allt er þetta merki um líf og mótun og gerjun í okkar litla samfélagi þar sem tekist er á um lítil og stór mál sem varða hag almennings.

Ný ríkisstjórn tók við völdum rétt fyrir aðventu, telur sig vera tímamótastjórn sem muni láta fjölmargt gott af sér leiða. Nú er senn liðið hálft ár frá því að ráðherrar settust í stólana, hafa fengið tækifæri til að hreiðra um sig og kynna sín áform, og þeir tala fjálglega. Það er svo stutt síðan að landsmenn muna vel hver áhersluatriði allra stjórnmálaflokka voru í aðdraganda kosninga. Þau voru skýr, krefjandi en ekki flókin. Það voru velferðarmálin, heilbrigðismál, málefni aldraðra, fátæks fólks, öryrkja, barnafjölskyldna. Að bæta félagslega stöðu hópa sem um langt skeið hafa farið halloka, að styrkja stoðir samfélagsins að fyrirmynd annarra Norðurlanda. Þetta var og er ákall þjóðarinnar og um þetta voru stjórnmálamenn, flokkar og frambjóðendur sammála. Og hvert stefnir?

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára liggur fyrir og bíður lokaumfjöllunar þingsins. Í henni kristallast sýn stjórnvalda. Þar er kalli þjóðarinnar því miður ekki svarað. Ekki er krónu bætt við barnabætur eða vaxtabætur, úrræði sem gagnast ungu fólki best. Um enga raunaukningu er að ræða í fjármunum sem renna eiga til aldraðra umfram eðlilega fjölgun í þessum hópi.

Öryrkjar munu áfram búa við bág kjör, krónu á móti krónu skerðingunni verður ekki aflétt að óbreyttu. Heilbrigðisþjónustan býr við stefnuleysi sem jaðrar við öngþveiti. Sjúkratryggingar Íslands gera samninga um þjónustu út og suður með ómarkvissum hætti og án þarfagreiningar. Á sumum sviðum sárvantar þjónustu en á öðrum er kraninn galopinn. Stofnanir í heilbrigðiskerfinu sem reyna að halda uppi lögbundnum verkefnum segja hátt og skýrt: Það er boðað áframhaldandi undanhald og niðurskurður. Þær segja allar sömu söguna, allt í kringum landið: Við getum ekki haldið uppi óbreyttri þjónustu ef ríkisstjórnin breytir engu.

Landspítalinn, langstærsta og mikilvægasta heilbrigðisstofnunin, fullyrðir t.d. að strax á næsta ári vanti um 5,5 milljarða svo halda megi sjó. Endurspeglar þetta vilja þúsundanna í aðdraganda kosninga, þær skoðanir sem fram komu í sögulegum undirskriftum um átak í heilbrigðisþjónustu? Nei, herra forseti, þjóðin vill nýjar áherslur, áherslur sem miða að umbótum fyrir efnalítinn almenning í landinu.

Það var ekki kallað eftir skattalækkunum sem þessi ríkisstjórn lét þó verða sitt fyrsta verk að samþykkja og afsala sér þar með 14 milljörðum kr. Það var kallað eftir samfélagslegum umbótum.

Það endurspeglar ekki heldur vilja þjóðarinnar að færa stærstu og fjársterkustu útgerðum landsins um 3 milljarða í lækkuðum veiðigjöldum. Fyrir þá peninga væri strax og tafarlaust hægt að stíga stór skref og aflétta skerðingum hjá öryrkjum.

Það er kallað eftir stefnu sem miðar að velferð og afkomulegu öryggi fyrir alla landsmenn. Við viljum áfram tilheyra fjölskyldu Norðurlanda og vera hluti hins norræna velferðarkerfis sem flestar þjóðir heims horfa til með aðdáun. Núverandi stjórnvöld horfa annað, í átt til einhvers konar lausungarstefnu þar sem velferðin er skilyrt með háum skerðingum og lágum frítekjumörkum.

Í dag er það í raun hlutskipti aldraðra og öryrkja að geta hvorki unnið né sparað. Þeir séu um leið komnir í heljargreipar skerðinga. Þessu verður að linna. Fyrir því munum við í Samfylkingunni berjast þótt við Golíat sé að etja nú um stundir.

Um 70% aldraðra eru með tekjur undir framfærsluviðmiðum. Af þeim sem búa einir og standa illa að vígi eru 70% konur, konur sem hafa unnið láglaunastörf við umönnun og önnur þjónustustörf og þeirra bíður fátækt.

Það er sama hvar borið er niður í málefnum almannatrygginga og lífeyrismála. Ísland rekur lestina alls staðar meðal Norðurlanda og það dregur í sundur. Það er ekki tilviljun, það er pólitísk stefna og ákvörðun stjórnvalda.

Þessi ríkisstjórn viðheldur óbreyttu ástandi, misskiptingu. Ef við snúum ekki við blaðinu nú þegar, ef við sýnum ekki merkin í þeirri fjármálaáætlun sem við ætlum að afgreiða í þessari viku, þá stimplum við okkur út, út úr norræna velferðarmódelinu.

Herra forseti. Endurspeglar það vilja landsmanna? Ég held ekki.

Ágætu landsmenn. — Góðar stundir og gleðilegt sumar.