148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:52]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Heilbrigðismál og málefni aldraðra og barna eru mér hugleikin og ætla ég að fjalla um þau hér í kvöld.

Þegar rætt er um málefni aldraðra koma biðlistar og fjölbýli á hjúkrunarheimilum upp í hugann. Það er því ánægjulegt að nú sér fram á stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma á landinu. Sú uppbygging sem fram undan er felst bæði í aðbúnaði þeirra sem búið hafa í tví- og þríbýlum á hjúkrunarheimilum landsins, auk þess sem fjölgað verður hjúkrunarrýmum almennt til að koma til móts við þá miklu þörf sem er til staðar í dag og fer vaxandi með auknum lífslíkum og lífaldri landsmanna. Einnig verður lögð áhersla á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu til að efla og styrkja einstaklinginn svo síður sé þörf á dvöl í hjúkrunarrými.

Á landsbyggðinni eru gjarnan rekin sjúkrarými í tengslum við hjúkrunarheimili sem nýtt eru til skemmri innlagna, t.d. vegna eftirlits, veikinda eða slysa, endurhæfingar eða lífslokameðferðar annarra en íbúa hjúkrunarheimilanna. Ég hvet heilbrigðisráðherra til að huga að því í uppbyggingu og endurbótum á hjúkrunarrýmum að hugsað sé fyrir því að þessi þáttur sé tekinn inn í jöfnuna og styrktur í leiðinni.

Sjúkrarýmin úti um landið eru þjóðhagslega hagkvæm og spara dýrari úrræði, svo sem innlagnir á hátæknisjúkrahús, og liðka líka fyrir útskriftum úr dýrara rými. Einnig veita þau bæði íbúum og heilbrigðisstarfsfólki sem starfar á landsbyggðinni ákveðið öryggi og sveigjanleika í meðferð, koma oft í veg fyrir óþarfakostnað og óþægindi við sjúkraflutninga milli landshluta þar sem hægt er að sinna fólki í heimabyggð.

Oft hefur gengið erfiðlega að manna stöður sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og er ánægjulegt að í stefnumálum ríkisstjórnarinnar má finna marga liði þar sem þetta er gaumgæft og lausna leitað. Sem dæmi stendur til að fjölga heilsugæslulæknum með þróun náms í héraðslækningum sem býr heilsugæslulækna undir störf í dreifbýli. Fjarheilbrigðisþjónusta fær aukið vægi en með nýtingu nýjustu tækni og fjarskipta má jafna aðgengi almennings í landinu að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu.

Mikið ákall er í dag eftir bættri geð- og sálfræðiþjónustu og getur fjarheilbrigðisþjónustan komið sterk inn á því sviði sem viðhaldsmeðferð fyrir einstaklinga sem búsetu sinnar vegna þurfa að sækja sér þjónustu um langan veg. Nýjar áherslur í málefnum barna með fjölþættan vanda gefa einnig væntingar um að tekið verði betur utan um þann hóp og fjölskyldur þeirra. Börn sem glíma við fíknivanda og geðræna erfiðleika hafa fallið á milli kerfa í samfélaginu um nokkurt skeið en ríkisstjórnin með félagsmálaráðherra í broddi fylkingar er að taka á þeim málum. Ákall er einnig eftir auknu aðgengi, þá sérstaklega ungs fólks, að sálfræðiþjónustu. Með því að efla þjónustu við þennan hóp og forvarnir á sviði geðheilbrigðismála drögum við úr vaxandi þörf sem heldur áfram að myndast sé ekkert að gert.

Teymisvinna kennara og annarra sérfræðinga í sjálfstyrkingu og forvörnum með börnum á öllum skólastigum styrkir börnin okkar og gefur þeim verkfæri til að vinna með síðar á lífsleiðinni er eitthvað bjátar á.

Mig langar að ítreka að ríkisstjórnin leggur einmitt sérstaka áherslu á forvarnir og lýðheilsu, m.a. í mennta- og heilbrigðiskerfinu, með áherslu á íþróttir, æskulýðs- og öldrunarstarf samfélaginu til heilla. — Gleðilegt sumar, kæru landsmenn.