148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

siðareglur ráðherra.

[11:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á undanförnum misserum hef ég spurt bæði hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra út í siðareglur ráðherra og hvort það hafi ekki verið brot á þeim siðareglum að fela skýrslu um skattaskjólseignir Íslendinga fyrir kosningar 2016. Fyrstu fyrirspurnunum á 146. þingi var beint til þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, og var ekki svarað þrátt fyrir að ráðherra hefði fengið marga mánuði til þess og spurningarnar hafi ekki verið flóknar. Það var ekki fyrr en núverandi forsætisráðherra fékk tækifæri til að svara að svör fóru loksins að berast. Í þeim svörum kom m.a. fram að það er undir hverjum ráðherra komið að túlka siðareglur og fara eftir þeim.

Í nýlegu svari fjármálaráðherra kom fram áhugaverð túlkun sem mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í. Spurningin var hvenær mat á því hvort efni skattaskjólsskýrslunnar varðaði almannahag eða ekki hefði farið fram. Hvenær fór matið fram? Svarið var, með leyfi forseta:

„Skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum var unnin að frumkvæði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Birting hennar var því algerlega án utanaðkomandi kvaða eða mats á því hvort þær ættu við samkvæmt siðareglum.“

Virðulegi forseti og hæstv. forsætisráðherra. Þetta svar gerði mig kjaftstopp í ansi langan tíma. Er það virkilega svo að ef um frumkvæði ráðherra er að ræða þurfi ekkert að fara eftir siðareglum? Ég bið vinsamlega um skýrt svar við þessari spurningu, svar sem byrjar annaðhvort á jái eða neii áður en útskýringar byrja: Já, ráðherra þarf ekki að fara eftir siðareglum í frumkvæðismálum, eða: Nei, ráðherra þarf að fara eftir siðareglum í frumkvæðismálum.