148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

siðareglur ráðherra.

[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka skýrt fram að ég fellst ekki á að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt ósatt; það ætla ég ekki að fallast á hér. Hins vegar bera ráðherrar ábyrgð á svörum sínum hér í þingi. Það er okkar stjórnskipan. Við erum ekki fjölskipað stjórnvald og forsætisráðherra fylgist ekki með svörum einstakra ráðherra. Þau hafa verið mörg, eins og ég sagði í mínu fyrra svari, enda fyrirspurnirnar margar. Ég fullvissa hv. þingmann um að hæstv. ráðherrar eru allir sem einn að reyna að fylgja þeim skyldum sem á þá eru lagðar, þ.e. að veita þinginu þær bestu mögulegu upplýsingar sem eru fyrir hendi á hverjum tíma. Hins vegar held ég að það sé síðan sérstakt umræðuefni hvort við þurfum ekki að gefa því aukinn kraft að vinna úr því að svara fyrirspurnum þingmanna í ljósi þess mikla álags sem hér hefur verið. Það kann auðvitað að þýða aukinn mannafla. Það liggur til að mynda fyrir að ég skulda, að ég held, hv. þingmanni svar við spurningu um störf þingmanna í ýmsum nefndum. Það hefur satt að segja reynst þrautin þyngri, svo að ég segi það hér í þingsal, að grafa þær upplýsingar upp (Forseti hringir.) tíu ár aftur í tímann. Það hefur kallað á mikinn tíma. Ég vona að hv. þingmaður sýni því skilning líka.