148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[16:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hvaða tíma er hv. þingmaður að miða þegar hann talar um að þetta hafi farið umfram almenna launaþróun? Er hv. þingmaður að tala um tímann frá 2006 þegar kjararáð varð til? Nei. Hv. þingmaður verður að átta sig á því að þetta snerist ekki bara um almenna launaþróun. Þetta snerist líka um ákveðnar viðmiðunarstéttir. Lögin voru þannig. Við getum verið ósátt við lögin. (Gripið fram í: Nei.) Jú, en það er ekki þannig að þetta hafi verið umfram einhverja launaþróun. Nei, þar sem það verður svo mikið bil þá verður mikið launatap hjá þessum stéttum á þeim tíma sem engin hækkun varð.

Ef menn ætla að gæta sanngirni í þessu þá er þetta mjög sambærileg launaþróun, hún gerist hins vegar bara á skömmum tíma. Það vita allir sem vilja vita. En menn geta alltaf verið í sínum pólitíska áróðri og sínum popúlisma endalaust í þessu og það verður alltaf. Ég veit það og við því er ekkert að gera. En þetta er auðvitað bara eðlileg launaþróun frá þeim tíma, en vandamálið var það að þessir hópar sátu árum saman eftir. Árum saman. Svo kemur þessi stóra hækkun og allt verður vitlaust, varð líka í hvert einasta skipti sem þetta var gert, líka 2006 í gamla Kjaradómi. Það varð allt brjálað. Það var heldur ekki mikill bragur á því í þinginu, þó að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafi ráðið mestu þá, að fara í þá vegferð að taka hér völdin með nýjum lögum. Það er ekki til eftirbreytni. Ég vona að menn fari aldrei þá leið.