148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:54]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er einmitt málið. Nú er orkuverð einhvers staðar í kringum 7 kr. á kílóvattstund og tölvan sem keyrir gagnagrunninn notar kannski 800 vött eða þar um bil, þannig að þessi eina tölva kostar tæplega 6 kr. á klukkutímann og kannski eru þær nokkrar vegna þess að vefþjónninn getur verið annars staðar, þetta gætu því verið nokkrar tölvur. Samtals erum við að tala um jafnvel hátt í 12–18 kr. á klukkutíma að keyra slíkt tölvukerfi. Það breytist ekki, óháð því hvort um sé að ræða þúsund eða milljón fyrirspurnir. Það er í rauninni bara sá kostnaður við að búa til gagnagrunn í upphafi sem skiptir einhverju máli.

Um leið og þetta lögboðna hlutverk, að safna þessum gögnum, hefur verið uppfyllt, sem er nauðsynlegt fyrir til dæmis starfsemi þjóðskrár, alveg óháð því hvort fólk fái að fletta upp í þeim gögnum eða ekki, þá væri að mínu mati ekki hægt að fullyrða, þar sem búið er að safna þessum gögnum samkvæmt lögboðnu hlutverki sem er óhjákvæmilegt hvort eð er, að það að fleiri en starfsmenn stofnunarinnar geti gert uppflettingar kosti allt í einu miklu meira. Vegna þess að jaðarkostnaðurinn er núll.

Þetta er í rauninni vandinn sem ég stend frammi fyrir í svona málum, bæði gagnvart þjóðskrá, gagnvart fyrirtækjaskrá og gagnvart öðrum rafrænum skrám. Það er bull að segja að það kosti eitthvað sérstaklega að veita þessa þjónustu í rauninni, 12 kr., 18 kr., skiptum því yfir þúsund manns. Er hægt að réttlæta það? Ég sé það ekki. Lögmaðurinn getur kannski hjálpað mér að skilja hvar mörkin liggja.