148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:08]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir umræðu sem er sannarlega mikilvæg. Málefni barna og barnaverndarmál eru alltaf gríðarlega mikilvæg.

Það er ekki hægt að fara mjög djúpt í málið í fimm mínútna ræðu en ég ætla að reyna að koma inn á þau þrjú atriði sem hv. þingmaður beindi sérstaklega til mín og óskaði eftir svörum við.

Í fyrsta lagi það sem snýr að endurskoðun á barnaverndarlögum. Við höfum sett í gang mjög viðamikla vinnu sem miðar að því að endurskoða barnaverndarlögin og málefni barna út frá öllum hliðum. Meðal annars er stefnt að samstarfi þriggja ráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um aukið og eflt samstarf sem miðar að því að brjóta niður múra og setja börn í forgrunn og skapa raunverulega barnvænt samfélag. Við settum þá vinnu formlega af stað með stórri ráðstefnu sem haldin var 8. maí sl., sem var eiginlega vinnufundur þar sem 350–400 aðilar úr geiranum komu saman og voru einn dag á vinnufundum og í málstofum til að ræða helstu áhersluatriði sem þurfa að breytast í barnaverndarstarfi á Íslandi. Núna er verið að taka saman niðurstöðurnar frá þeim vinnufundi og fer það inn í þá vinnu sem fram undan er.

Síðan er líka í gangi kortlagning á gagnrýndum úrræðum í snemmtækri íhlutun barna. Bragi Guðbrandsson er með það verkefni á sínum snærum og ætlunin er að því sé skilað næsta haust.

Búið er að skipa verkefnastjórn um stefnumótun í barnavernd til ársins 2030. Það er kortlagningarvinna sem fyrirtækið Expectus sér um og með þeim vinna samhliða fulltrúar velferðarráðuneytisins, fagdeildar félagsráðgjafa í barnavernd, Háskóla Íslands, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Barnaverndarstofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að þau verkskil verði einnig í haust.

Hv. þingmaður talaði um verkefnastjóra yfir þessari endurskoðun en nýverið var einmitt skipaður formlega verkefnastjóri yfir þeirri vinnu sem fram undan er. Hún heitir Erna Kristín Blöndal og hefur verið skipaður verkefnastjóri til eins árs til þess að vinna að heildarendurskoðun barnaverndarlaga og málefna barna. Hún hefur góða reynslu af því að starfa þvert á alla flokka vegna þess að hún starfaði með nefndinni á sínum tíma sem skrifaði nýju útlendingalögin.

Í framhaldi af því, vonandi á næstu vikum, er ætlunin að óska eftir tilnefningum í þverpólitískan hóp, með fulltrúum allra flokka, til þess að vinna úr öllu því sem við erum að safna núna og lýtur að barnavernd, frá Expectus, frá ráðstefnunni, úr úttekt sem nýja gæða- og eftirlitsstofnunin er að vinna. Henni hefur verið falið að fara yfir alla samskiptahætti innan barnaverndar og milli Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda og að gera úttekt á samskiptaháttum og koma með tillögur að því hvernig megi formgera þá.

Allri þeirri vinnu verður skilað næsta haust og fer hún inn í þá vinnu sem fram undan er. Hugur minn stendur til þess að þverpólitískur hópur taki við þessu og vinni næsta vetur að því að fullmóta breytingar á barnaverndarlögum, sem geta þá kannski litið dagsins ljós fyrir næsta vor ef allt gengur að óskum. Þetta var fyrsta spurningin.

Svo er það gagnaöryggi velferðarráðuneytisins, Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda. Gagnaöryggi velferðarráðuneytisins er þannig að rekstrarfélag Stjórnarráðsins fékk fyrir tveimur árum vottun frá British Standards Institution um að félagið hefði innleitt stjórnkerfi upplýsingaöryggis sem uppfyllir allar helstu kröfur varðandi geymslu gagna. Um var að ræða mikla vinnu þar sem starfsemi félagsins var rýnd með tilliti til upplýsingaöryggis og stórt skref stigið þegar félagið hlaut vottunina. Vottunin gildir til þriggja ára. Nýlega fór fram árleg úttekt BSI á stöðu mála hjá rekstrarfélaginu og stóðst félagið úttektina án athugasemda. Öryggi persónuupplýsinga er auðvitað lykilþáttur, bæði í eldri og nýrri persónuverndarlöggjöf, þannig að þau mál öll munu verða hert á næstunni.

Varðandi Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndir er það svo með Barnaverndarstofu að gagnaöryggi þar og skjalastjóri og skjalavarsla heyra undir Þjóðskjalasafn Íslands, eða lög um opinber skjalasöfn frá árinu 2014, þannig að það heyrir ekki undir sama og Stjórnarráðið. Hvað varðar barnaverndarnefndir er komið inn á það í barnaverndarlögum hvernig geyma eigi gögn og upplýsingar þar. En ég held að þetta sé klárlega eitt sem við þurfum að skoða við vinnslu barnaverndarlaganna, ekki kannski hvernig upplýsingarnar eru geymdar heldur hvaða upplýsingum við viljum deila og getum deilt í málum sem snúa að barnavernd. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða.

Þriðja spurningin lýtur að áhersluatriðum Íslands innan barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Ég verð að fá að koma inn á það á eftir (Forseti hringir.) vegna þess að ég er búinn með tímann.