148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

um fundarstjórn.

[20:03]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég kem hér upp til að bera af mér sakir vegna orða sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásmundur Friðriksson, lét falla í pontu í sérstakri umræðu um barnaverndarmál fyrr í dag. Þar sakaði Ásmundur Friðriksson mig um alvarleg brot í störfum mínum sem formaður velferðarnefndar, um trúnaðarbrest og gagnaleka, sem ég er algjörlega saklaus af og það veit þingmaðurinn vel. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann sakar mig um slíkt, en Sjálfstæðismenn vita mætavel að ef þeir endurtaka lygina nógu oft þá fara einhverjir að trúa henni. Ég hafna með öllu ásökunum Ásmundar Friðrikssonar og fordæmi orð hans. Ásakanir þingmannsins hafa kastað rýrð á störf mín, störf nefndarinnar og störf þingsins.

Þá eru athafnir hv. þm. Brynjars Níelssonar í forsetastól Alþingis algjörlega óforsvaranlegar þar sem hann leyfði þingmanni Sjálfstæðisflokksins að hafa uppi alvarlegar og grófar aðdróttanir í minn garð. Mér var svo ekki gefið tækifæri á að svara fyrir mig þar sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins er sat í forsetastól hunsaði ítrekað beiðnir mínar um að fá að koma upp í fundarstjórn til að bera af mér sakir, horfði beint í augun á mér og frestaði svo fundi í stað þess að gefa mér orðið.

Er mín upplifun sú að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi þarna misnotað afstöðu sína sem varaforseti Alþingis (Forseti hringir.) til að halda á lofti aðdróttunum þingmanns Ásmundar Friðrikssonar í minn garð. Ég vænti þess að þetta mál fái tilhlýðilega meðferð (Forseti hringir.) í forsætisnefnd Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)