148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:04]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (vanþróuðustu ríki heims). Nefndarálitið er frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin fjallaði um málið og fékk sérfræðinga frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu á sinn fund. Auk þess bárust umsagnir um málið frá Félagi atvinnurekenda og Sambandi garðyrkjubænda.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á 1. mgr. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005, að því er varðar tollfríðindi á vörum sem upprunnar eru í vanþróuðustu ríkjum heims samkvæmt skilgreiningum Sameinuðu þjóðanna (svokölluðum LDC-ríkjum). Samkvæmt 2. mgr. 1. tölulið 1. mgr. 7. gr. tollalaga njóta vörur frá þessum ríkjum nú sömu tollfríðinda og vörur sem upprunnar eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Með breytingunni er aukið við tollfríðindin og verða vörur sem falla undir 97% tollskrárnúmera tollskrár í viðauka I við tollalög undanþegnar tollum. Ráðherra verður heimilt að setja reglur um uppruna við innflutning vöru með reglugerð.

Nefndinni bárust ábendingar um að ganga mætti lengra en gert er með frumvarpinu og fella með öllu niður tolla á vörur frá þeim ríkjum sem í hlut eiga í stað þess að undanþiggja ákveðna vöruflokka sem tengjast landbúnaði. Skiptar skoðanir eru hins vegar um þetta atriði. Nefndin telur ekki tilefni til að gera breytingar á frumvarpinu að svo stöddu en beinir því til ráðuneytisins að ábendingar í þessa veru verði teknar til skoðunar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta álit.

Undir það skrifa sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Björn Leví Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ásgerður K. Gylfadóttir.