148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Mörg ríki eiga það sameiginlegt að landbúnaður stendur undir tiltölulega stórum hluta hagkerfisins, en viðskiptahindranir í þróuðum ríkjum gera þeim erfitt fyrir að flytja út landbúnaðarafurðir. Tvíhliða fyrirkomulagið sem nú er ráðandi í alþjóðaviðskiptum gerir samningsstöðu þeirra veikari. Þróuð ríki eru ólíklegri til að semja við og hvað þá gefa eftir í pólitískt viðkvæmum málaflokkum.

Tvíhliða fríverslunarviðræður setja meira álag á stjórnsýslu hvers ríkis fyrir sig eftir því sem viðræðunum fjölgar, verða margþættari og krefjast eftirfylgni hverjar fyrir sig. Stjórnsýsla margra þróunarríkja getur átt erfitt með að sinna fleiri slíkum ferlum í einu. Þá eru tveir höfuðvankantar á tvíhliða fríverslunarsamningum samanborið við marghliða. Þeir eru afvegaviðskipti og skortur á samræmi. Afvegaviðskipti lýsa stöðu þar sem óhagkvæm viðskipti eiga sér stað sem afleiðing af fríverslunarsamningi.

Ríki sem best er í stakk búið til að flytja út ákveðna vöru til annars ríkis nær ekki að njóta góðs af samkeppnishæfni sinni vegna fríverslunarsamnings á milli hins ríkisins og þriðja ríkis. Niðurstaðan verður að íbúar ríkisins sem flytur inn vöruna frá landinu sem það hefur fríverslunarsamning við borga hærra verð fyrir hana en ella. Og landið sem ekki hefur fríverslunarsamning getur ekki flutt vöruna út yfir höfuð. Skortur á samræmi lýsir sér þannig að fríverslunarsamningar eru mismetnaðarfullir hvað varðar ákvæði um umhverfisvernd, réttindi og kjör vinnandi fólks og ríkisstyrki, svo eitthvað sé nefnt.

Þegar alþjóðaviðskipti einkennast af aragrúa af fríverslunarsamningum á milli ríkja og ríkjasambanda skortir samræmi í leikreglum og kröfum fríverslunarinnar. Stærsti kostur tvíhliða fríverslunarsamninga borið saman við marghliða er skilvirkni, en auðveldara er að komast að samkomulagi þegar fjöldi aðila er minni. Umfang samningsins er undir þeim sjálfum komið hverju sinni. Fyrirkomulagið gerir ríkjum kleift að leggja áherslu á samningagerð við mikilvægustu útflutningsmarkaði sína og gefur þeim svigrúm til að halda pólitískt viðkvæmum málaflokkum utan samningaviðræðna.

Herra forseti. Við eigum að auka áherslu á fríverslun og nýtingu útflutningstækifæra, bæta þjónustu við Íslendinga erlendis, auka viðskiptaþjónustu og hagsmunagæslu á nýmörkuðum í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Þessi markmið endurspegla nýjan raunveruleika alþjóðaviðskipta í kjölfar stöðnunar Doha-lotunnar svokölluðu. Hlutverk utanríkisþjónustunnar er í auknum mæli fólgið í að greiða leiðina fyrir aðgang innlendra fyrirtækja að erlendum mörkuðum. Eðlilegt verður að teljast að ríkið sækist eftir því að stunda fríverslunarstefnu sína að mestu utan ramma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar ef Doha-lotan hefur ekki borið árangur og pólitískur vilji er ekki til staðar til að hefja umfangsmiklar marghliða fríverslunarsamningaviðræður að nýju. Þó má ekki gleyma að fríverslunarsamningar gerast ekki í pólitísku tómarúmi. Gerð þeirra kann að virðast að mestu tæknilegs eðlis, en ávöxtur þeirra getur verið verulegur sé rétt að þeim staðið og allir hagsmunaaðilar hafðir með í ráðum.

Því fer fjarri að takmarkaður útflutningur þróunarríkja á landbúnaðarafurðum til þróaðra ríkja sé einungis viðskiptahindrun þeirrar síðarnefndu að kenna. Samkvæmt Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, eru það landbúnaðarumbætur innan lands í þróunarríkjum sem myndu leiða til stærstu ávinninganna. Þar getum við Íslendingar svo sannarlega látið að okkur kveða í gegnum þróunarsamvinnu. Hins vegar hefur breyting alþjóðaviðskiptakerfisins úr marghliða í tvíhliða fyrirkomulag og stöðnun Doha-lotunnar fjarlægt mikilvægan vettvang til að stuðla að þýðingarmiklum umbótum í aðgengi þróunarríkja að mörkuðum þróaðra ríkja.

Hægt er að fara aðrar leiðir til að skjóta styrkum stoðum undir sjálfbærni innan þessara fátæku ríkja en með tollfrelsi. Má þar nefna skuldauppgjöf. Verulegur árangur hefur náðst í að létta skuldabyrði fátækustu ríkja heims, en mun síður gengur að standa við fyrirheit um bætt viðskiptakjör og aukna þróunaraðstoð. Þetta er niðurstaða í nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Mörg þróunarríki þurfa að taka meira tillit til viðskipta og samkeppnishæfni í þróunaráætlunum sínum í því skyni að notfæra sér viðskiptatækifæri. Mörg þeirra þyrftu einnig að afnema skatta og tolla á nauðsynleg lyf og leyfa notkun samheitalyfja á lægra verði. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því að erfitt getur verið að meta gagnsemi og skilvirkni slíkrar aðstoðar vegna skorts á gagnsæjum upplýsingum um þessa aðstoð.

Þess má geta að skuldauppgjöf til fátækra ríkja er í raun guðfræðilegt hugtak. Um það hefur m.a. verið skrifuð lærð ritgerð eftir séra Pál Ágúst Ólafsson. Hér á eftir ætla ég að koma inn á nokkur áhugaverð sjónarmið sem koma fram í ritgerð séra Páls um þetta efni.

Í 3. og 5. Mósebók Biblíunnar eru reglur sem geta átt erindi við samtímann eins og hann blasir við aðstæðum í þeim fátæku löndum sem hér hefur verið rætt um. Kröfum um skuldauppgjöf er oft fálega tekið, bæði af vel stæðum þjóðum og viðskiptabönkum. Hinir fornu textar Gamla testamentisins hafa oft skírskotun í viðkvæm pólitísk mál í okkar samtíð. Textinn í 5. Mósebók hljómar svo, með leyfi forseta:

„Sjöunda hvert ár skaltu fella niður skuldir. Eftir þessum reglum skaltu fella niður skuldir: Sérhver lánardrottinn skal falla frá kröfum vegna láns sem hann hefur veitt náunga sínum. Hann skal ekki ganga eftir greiðslu hjá náunga sínum og meðbróður því að niðurfelling skulda hefur verið boðuð vegna Drottins.“

Einnig segir að enginn okkar á meðal eigi að vera fátækur.

Ritskýrendur í guðfræði eru á einu máli um að í 5. Mósebók sé átt við skuldir sem hinir fátæku, óborgandi, stofnuðu til. Nokkur dæmi eru nefnd um slíka einstaklinga, t.d. um bónda sem þurfti á fjármunum að halda vegna uppskerubrests, til að kaupa útsæði eða annað þess háttar, og borgarbúa sem var fjárvana vegna atvinnuleysis. Litið var á lán til slíkra einstaklinga sem mannúðarverk fremur en viðskiptagjörning. Áskrift slíks láns var því örlætisgerningur eða afskriftin var örlætisgerningur fremur en nokkuð annað.

Reglur 5. Mósebókar um afskriftir skulda eru merki um það hvernig guð ætlaðist til að jöfnuður næðist í samfélaginu. Vitað er að til voru konungar í Mesópótamíu sem gáfu upp skuldir þjóða sinna, oftast við valdatöku sína og stundum aftur einhverjum árum síðar. Sambærilegar athafnir þekktust hjá Grikkjum. Notað er orðalagið sjöunda hvert ár í 5. Mósebók. Þessi orð eru talin þýða að afskrifa á skuldina við sólarlag síðasta dags sjöunda ársins.

Að fella niður skuldir. Skiptar skoðanir hafa verið um það hvort í fyrirmælum felist boð um að fella tímabundið niður vaxtaskuldbindingu eða hvort í þeim felist algjör afskrift skulda. Frekar hefur verið hneigst að því að í orðalaginu felist algjör afskrift skulda. Almennt er talið að túlka beri þetta orðalag samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. að skuldir skuli fella niður eða afskrifa.

Enn fremur segir í 5. Mósebók, með leyfi forseta:

„Sérhver lánardrottinn skal falla frá kröfum vegna láns sem hann hefur veitt náunga sínum.“ Svo virðist að þrátt fyrir þetta orðalag, sem felur í sér samkvæmt orðanna hljóðan að allir kröfuhafar eigi að afskrifa öll lán á sjö ára fresti, þá hafi engu að síður verið strax eða fljótlega farið að líta svo á að skuldaafskriftir næðu ekki til allra skulda, enda var lögmálið fyrst og fremst ætlað til hagsbóta fyrir hina fátæku. Þannig var fljótt farið að líta svo á að lögmálið næði ekki til skulda vegna launagreiðslna, greiðslu lána með einhvers konar veðtryggingu og skulda, sem til hafði stofnast vegna kaupa á vöru með afborgunum „því að niðurfelling skulda hefur verið boðuð vegna Drottins“. Það felur í sér skilaboð um að fyrirmælin um skuldauppgjöf komi frá Drottni, engum öðrum. Af þeim skýringarritum sem hér hefur verið vísað til virðist sem niðurfelling skulda hafi átt að eiga sér stað á sjö ára fresti og að afskrifa skyldi algjörlega allar skuldir. Svo virðist sem reglurnar hafi fyrst og fremst átt að vera til hagsbóta fyrir hina fátæku og því farið að túlka reglurnar á þann veg að niðurfellingin tæki ekki til allra skulda. Grunnur þessa er sá að Drottinn fer fram á að felldar séu niður skuldir og því fylgir það loforð frá Drottni að hann muni blessa þann sem það gerir.

Herra forseti. Þessa tilvitnun mína í texta Gamla testamentisins og skuldaniðurfellingu til fátækra þjóða tel ég eiga ágætlega við í þessari umræðu, en það er sjálfsagt að við Íslendingar tökum virkan þátt í samstarfi við Alþjóðaviðskiptastofnunina sem stefnir að því að stuðla að efnahagslegri farsæld, sjálfbærni og baráttu gegn fátækt.

Ég er hlynntur þessu frumvarpi. Það eru hins vegar ýmis álitamál sem vert er að hafa í huga. Frumvarp sem þetta hefur mjög takmarkaðan tilgang ef innviðir í viðkomandi landi eru ekki í stakk búnir að greiða fyrir útflutningi.

Í þessu sambandi, og ég geri það að lokaorðum mínum í þessari umræðu, verða viðkomandi ríki að vera sjálfbær.