148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[21:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Örfá atriði um þetta mál. Nauðsyn þess birtist okkur í því sem gerst hefur á undanförnum árum hvað varðar misnotkun á upplýsingum um fólk, misnotkun á persónuupplýsingum. Sem dæmi má nefna Vodafone-lekann, lekamálið svokallaða, Ashley Madison lekann, þar sem upplýsingar um Íslendinga voru á erlendri síðu en komust í dreifingu. Þetta eru allt dæmi um það að fólk vissi ekki nákvæmlega hvaða upplýsingar voru til og hafði engan möguleika á því að fullvissa sig um öryggi þeirra í höndum annarra eða þriðju aðila. Þessi dæmi ættu að vera mjög góður grunnur fyrir okkur til þess að skilja hversu mikilvægt er að taka upp þessar reglur, óháð því hvort þær séu innleiðing eða ekki.

Það eru fleiri dæmi. Ég nefni það sem Chelsea Manning og Edward Snowden sýndu okkur, hvernig farið er með upplýsingar, hvernig þjóðríki fara með upplýsingar, hvernig njósnað er um okkur, hvernig stjórnvöld njósna um okkur og hvernig þau haga sér í skjóli leyndar, trúnaðar og öryggis. Meðal annars þess vegna er mikilvægt að taka þessar reglur upp.

Nýlegt dæmi í kringum kosningar í Bandaríkjunum, varðandi Cambridge Analyctica, er enn einn vinkill á söfnun persónuupplýsinga, á notkun þeirra til ýmissa verka sem við hefðum ekki getað gert okkur í hugarlund að væru möguleg fyrir örfáum árum. Það dæmi ætti að segja okkur hversu nauðsynlegt það er að taka upp þessar reglur og þessi lög.

Það að við fáum að vita hvaða gögn eru til um okkur, það að við getum vitað og stjórnað því með hverjum þeim er deilt og það að við getum látið eyða þeim er gríðarlega mikilvægur eiginleiki fyrir fólk til að halda utan um persónu sína og persónuvernd í stafrænum heimi. Þá er vert að minnast einmitt á það að fyrir ekki svo mörgum árum, ég held sex, sjö árum eða svo, var gerð ítrekun á mannréttindasáttmála meðal Sameinuðu þjóðanna um að mannréttindi eigi líka við í stafrænum heimi, í stafrænu umhverfi. Þetta regluverk og þessi innleiðing er skref í áttina að því að við getum í raun verndað persónuupplýsingar okkar í þessum nýja stafræna heimi.

Óháð því hvort þetta varði stjórnarskrárákvæði, varðandi hvar eftirlitsstofnun er með eftirfylgni á því hvort verið sé að framfylgja þessum lögum o.s.frv., sýna dæmin hversu gríðarlega mikilvægt það er að taka þetta mál alvarlega og gefa alls ekki eftir til að ná tökum á friðhelgi okkar í stafrænum heimi.