148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[21:44]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Hér er á ferðinni ákaflega brýnt mál. Við í Viðreisn styðjum í grundvallaratriðum það verklag sem hér er haft, að samþykkja upptöku gerðarinnar í EES-samninginn án stjórnskipulegs fyrirvara áður en að eiginlegri framkvæmd á upptökunni er komið og líka þeim óvenjulega hætti að frumvarp eða lög á grundvelli þessarar gerðar liggja ekki fyrir samþykkt á Alþingi.

Það er hins vegar full ástæða til að hafa áhyggjur af ýmsum þáttum í þessu máli. Þau atriði sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson reifaði hér áðan eru öll atriði sem ekki má nálgast með neinni léttúð þegar kemur að stjórnarskránni. Það er því alveg ljóst að þingið hefur ærið verkefni fyrir höndum á þeim stutta tíma sem er til þingloka við að ljúka þessu máli með einhverri sæmd þannig að vandað verði til verka að því marki sem unnt er. Það er eiginlega þar sem áhyggjur mínar liggja.

Það er alveg ljóst þegar horft er á frumvarpið til nýrra persónuverndarlaga á grundvelli þessarar tilskipunar að þar er í æðimörgum tilvikum, að mér sýnist, gengið talsvert lengra en tilskipunin sjálf krefst af okkur. Þar koma upp fjölmörg álitaefni. Ég held að vert sé fyrir okkur að hafa það í huga að þó svo að hér sé um gott mál að ræða, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á, er verið að stíga risastórt skref í að vernda einkalíf fólks, tryggja réttindi einstaklinga til að geta aflað sér upplýsinga um hvaða upplýsingar eru geymdar eða safnað um þá, og jafnframt að tryggja rétt þeirra til þess að geta látið eyða slíkum gögnum. Er ljóst af allri umræðu um þetta mál að hér hefur Evrópusambandið tekið forystu í þessum mikilvæga málaflokki. Í sívaxandi stafrænum heimi er um alveg gríðarlega mikilvægt skref að ræða, eins og hin ótalmörgu dæmi tóku til sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni.

Það breytir því ekki að þetta mál er allt of seint fram komið fyrir þingið til þess að við getum sinnt því af vandvirkni. Þegar við horfum til þess hversu íþyngjandi þessi löggjöf getur mögulega orðið fyrir atvinnulífið hér, hversu kostnaðarsöm hún getur orðið í innleiðingu og hversu gríðarlega mörg vafaatriði leika á um hvernig túlka beri tilskipunina, hvernig vinna beri að eftir henni — það er alveg ljóst að í raun og veru mun ekki leysast úr þeim vafaatriðum af neinu viti fyrr en við framkvæmd laganna þegar fram sækir — held ég að við þurfum að stíga mjög varlega til jarðar í innleiðingunni.

Þegar hefur t.d. verið gagnrýnt hversu háar sektarfjárhæðir er um að ræða, sem ég tel mjög óeðlilegt í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um túlkun mála, óvissu sem ríkir um þá framkvæmd sem á þessum málum verður. Þá held ég að þingið ætti strax að horfast í augu við þá staðreynd að hér sé rétt að innleiða tilskipunina með eins einföldum hætti og hægt er og leyfa síðan reynslu að koma framkvæmdinni á áður en endurskoðuð löggjöf verður tekin fyrir í þinginu. Það gæti verið jafnvel skynsamlegt að bíða í eitt til tvö ár áður en slíkt frumvarp yrði lagt fram einfaldlega til þess að fá betri reynslu á þau álitaefni sem slík löggjöf þarf að taka á.

Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt að í meðhöndlun allsherjar- og menntamálanefndar á þessu mikilvæga máli verði strax ráðist í að vinna málið með þeim hætti að hér sé um lögfestingu á Evróputilskipuninni að ræða með þeim nauðsynlegu viðbótum sem því verða að fylgja til þess að taka á einhverjum álitaefnum í innleiðingu, en að lengra verði ekki gengið að þessu sinni. Ég held að annað væri í hæsta máta ábyrgðarlaust af Alþingi. Þetta mál hefur verið um allnokkurt skeið til vinnslu í ráðuneytinu, ýmis varnaðarorð hafa verið höfð upp um þá aðferð sem ráðuneytið hefur valið við innleiðinguna og hversu langt sé gengið í mörgum tilvikum, hversu aukið sé við þau ákvæði sem hér er verið að innleiða eða hert á íþyngjandi ákvæðum reglugerðarinnar. Ég tel að það sé einfaldlega skynsamlegt og nauðsynlegt af þinginu að innleiða þetta með lágmarksákvæðum í fyrstu lotu og gefa síðan ákveðinn tímafrest til þess að betri reynsla komi á þessa mikilvægu löggjöf í framkvæmd áður en farið verður t.d. að grípa til mjög íþyngjandi sektar- eða refsiákvæða.

Þarna heyrum við varnaðarorð, bæði frá sveitarfélögum landsins, líka frá fyrirtækjum landsins, sem mörg hver hafa lagt mjög mikla vinnu á sig við undirbúning innleiðingarinnar og eru mörg hver nokkurn veginn tilbúin í slíka innleiðingu. En alls staðar eru sömu varnaðarorðin höfð uppi. Hér eru mörg álitaefni óleyst. Hér er um mjög íþyngjandi frumvarp að ræða sem virðist í mörgum tilvikum ganga mun lengra en þörf krefur. Þess vegna held ég, einfaldlega í ljósi þess tímaskorts sem við höfum hér í þinginu, að nauðsynlegt sé að einfalda þessa innleiðingu til muna.

Ég vona svo sannarlega að um það geti skapast traustur meiri hluti í þinginu að við göngum ekki lengra en nauðsyn ber gagnvart fyrirtækjum og sveitarfélögum hvað þetta varðar. Því að það er alveg ljóst að engu að síður mun þessi löggjöf hafa veruleg áhrif, sem við erum öll sammála um að er nauðsynlegt, en það er ekkert sem kallar á að ganga lengra en sem nemur lágmarksákvæðum tilskipunarinnar í fyrstu lotu.

Þess vegna treysti ég því að við einbeitum okkur að því sem máli skiptir, sem er það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á, þ.e. þau álitaefni sem uppi kunna að verða varðandi stjórnarskrá í innleiðingu þessarar reglugerðar og að við einskorðum okkur við lágmarksinnleiðingu í fyrstu lotu.