148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

almenna persónuverndarreglugerðin.

[11:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það má vera, eins og hæstv. dómsmálaráðherra bendir á, að um sambærilegar aðferðir að hluta í það minnsta sé að ræða hjá nokkrum nágrannalöndum okkar, en við erum að horfast í augu við talsvert aðra stöðu. Norska þingið hafði þetta mál til umfjöllunar frá miðju þessu misseri. Ég held að það hafi komið inn í norska þingið í mars. Ég held að við hæstv. dómsmálaráðherra þurfum ekki að deila um það að sá tími sem þingið hefur til afgreiðslu málsins er ákaflega skammur. Ég sé ekki ástæðu til að vera í einhverjum sérstökum deilum um það í sjálfu sér, heldur kannski fyrst og fremst að leita leiða fyrir þingið til að einfalda málið í fyrstu lotu þannig að hægt sé að vanda vel til verks varðandi þann þátt þess og taka síðan önnur álitaefni til frekari skoðunar og vandaðri meðferðar í þinginu á vetri komanda.