148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:46]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er búið að vera áhugavert að fylgjast með umræðunni vegna þess að í henni hefur komið fram það sem ég held að sé tilefni til að tala um sem hina vanheilögu þrenningu íslenskra fjármála, þ.e. verðtryggingin, krónan og svo almennur flæðisóstöðugleiki sem kemur til vegna þess að við erum með lítið hagkerfi sem er fáar undirstöðuatvinnugreinar, sem leiðir af því að við erum alltaf með stórar hagsveiflur og vaxtaþvælan öll tengist því.

Skoðum vandamálið sem hefur nefnt, að erfitt hafi verið fyrir fólk að fóta sig í séreignarstefnunni, sem skýrist að hluta til af því að séreignarstefnan er ekki góð en líka af því að sögulega hafa laun verið frekar lág og lítil geta, sérstaklega hjá ungu fólki, til að leggja fyrir. Þetta gerir það að verkum að erfitt er að komast út á húsnæðismarkaðinn.

Ef maður horfir aðeins á krónuna, vegna þess að það er að ég held einn auðveldasti staðurinn til að laga hluti, er mjög áhugavert að lesa skýrsluna sem kom út í gær. Hún er að mörgu leyti góð en það sló mig strax á fyrstu síðum hennar þar sem var tekið fram að það væru aðeins tvö mynstur sem væri hægt að taka upp, þ.e. stífari verðbólgumarkmið eða einhvers konar myntráð. Nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefið út skýrslu, eða það er ekki einu sinni skýrsla heldur undirstöðuplagg hjá honum, þar sem talað er um níu stöðluð mynstur fyrir peningastefnu. Það að þessi nefnd hafi eingöngu getað komið auga á tvö þeirra kemur mér svolítið á óvart þar sem ágætlega menntaðir hagfræðingar unnu að skýrslunni.

Ég gæti svo sem talið upp alla kosti þess að afnema verðtrygginguna. Ég gæti talað lengi um það af hverju krónan sem slík er ekki framtíðargjaldmiðill, en í öllu falli heyrist mér vera mikill stuðningur við að laga þetta. (Forseti hringir.) Allir koma auga á vandann sem slíkan, það er kannski bara herslumunurinn og áhersluatriðin sem breytast á milli manna og við ættum auðvitað að reyna að koma okkur saman um þau.