148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég held að við ættum einmitt að sammælast um það í þessum sal að taka þá skýrslu sem unnin hefur verið um möguleika okkar í peningamálum til vandaðrar umræðu í þingsal. Þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Við þurfum með einhverjum hætti að ná að taka saman höndum um hvernig við náum vaxtastiginu í landinu niður. Fyrr losnum við ekki við verðtryggingu. Verðtrygging er hækja óstöðugs gjaldmiðils, hækja hás vaxtastigs.

Það er hins vegar áhugavert líka þegar rýnt er í þessa skýrslu og þegar horft er einmitt í húsnæðislið vísitölunnar að þar erum við að reikna þennan húsnæðislið með allt öðrum hætti en nágrannalönd okkar þannig að hækkunaráhrif hans eru miklum mun meiri en ef við horfum t.d. til þeirra fáu annarra landa sem í raun og veru notast við sambærilega reikniaðferð í húsnæðisliðnum. Við erum að uppreikna það í raun og veru eins og húsnæði eða hækkun á jaðarverði húsnæðis, þess litla hluta húsnæðis í landinu sem skiptir um hendur á hverju ári, það hækkar kostnað allra landsmanna af húsnæði sínu, sem er auðvitað kolrangt. Það eru auðvitað þeir sem kaupa húsnæði á háu verði sem bera af því einhvern kostnað. Það hefur engin áhrif á kostnað minn þótt nágranni minn hafi keypt sér hús á hærra verði en ég.

Þetta er í raun og veru að sprengja upp verðbólguviðmiðið eða húsnæðisviðmiðið í vísitölunni og er auðvitað mjög alvarlegt af því að það er ekkert annað ríki sem styðst jafn mikið við verðtrygginguna og við í uppreikningi á lánum. Þetta er eitthvað sem ég held að ætti að vera algjört forgangsmál að leiðrétta. Það eru engin sjáanleg rök fyrir þessu og myndi skipta mjög miklu máli fyrir verðtryggð lán landsmanna ef við gerðum þetta með sambærilegum hætti og önnur lönd.

En að því sögðu megum við heldur ekki gleyma hinu, við verðum að nálgast þessa umræðu vitrænt. Við verðum að tala um alla þætti peningastjórnunarinnar, (Forseti hringir.) kosti og galla krónunnar, kosti og galla annarra möguleika eins og evru og hvernig við getum síðan bætt hagstjórnina til þess að stuðla að (Forseti hringir.) lægra vaxtastigi en við höfum átt að venjast hér á undanförnum áratugum.