148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu í dag. Ég ætla að leyfa mér að byrja á að segja að mér finnst vandinn á húsnæðislánamarkaðnum vera fyrst og fremst sá að það er ekki nægilega mikið frelsi á markaðnum. Þegar menn ætla að taka verðtryggt lán eða þegar lánveitandi ætlar að verðtryggja lán er bara ein vísitala í boði. Það er kannski vandinn. Ef við hefðum meiri fjölbreytni í lánakostum gætum við séð hina ólíku vexti sem af frelsinu myndu leiða. Það er ekki hægt að fara þá leið sem mér finnst sumir hv. þingmenn hafa gert í dag, að segja að húsnæðisliðurinn einn og sér sé ábyrgur fyrir þetta stórum hluta verðbóta undanfarinna ára, eins og að ef við hefðum kippt húsnæðisliðnum út hefðu vextirnir með öllu verið óbreyttir. Við höfum ekki svarið við því.

Hér hafa sumir kallað eftir því að evran væri lausnin á því öllu saman, en staðan er sú í Svíþjóð í dag að þar eru rétt rúmlega 200 þúsund ungmenni á aldrinum 20–27 ára í foreldrahúsum, um 1/4 allra ungmenna á þeim aldri. Það hlutfall hefur ekki verið hærra síðan mælingar hófust árið 1997. Þar hjálpa evruvextirnir, jafnvel þótt þeir henti engan veginn efnahagsástandinu í Svíþjóð, ekki til við að leysa húsnæðisvandann. Húsnæðiskrísan hefur aldrei verið meiri hjá ungu fólki í evrulandinu en einmitt í dag.

Ég verð líka að segja vegna þess sem kom fram í síðustu ræðu málshefjanda að ég kalla ekki eftir því að menn hætti umræðu um verðtrygginguna, hún má alveg halda áfram. En ég hefði gjarnan viljað hafa meiri umræðu um vexti vegna þess að það eru oft þeir hinir sömu og kvarta undan háum vöxtum sem í þessum þingsal þrýsta á mig, fjármálaráðherrann, ríkisstjórnina, að ganga strax til samninga við þá (Forseti hringir.) sem krefjast tugprósenta launahækkana. Það er m.a. eitt samhengi sem hefur aldrei verið viðurkennt í þingsal, að ef menn vilja búa í landi þar sem laun hækka um 10–15% á hverju ári, ár eftir ár eftir ár, vilja menn búa í hávaxtalandi.