148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

um fundarstjórn.

[11:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur þekkir forseta af því að vera sanngjarnan mann og greiðvikinn. Því skil ég ekki hvers vegna settar eru á atkvæðagreiðslur þegar ekkert samkomulag liggur fyrir um hvaða mál verði tekin á dagskrá þessa þings. Það samkomulag liggur ekki fyrir. Ég minni t.d. á það mál sem ég minntist á áðan, sem gæti komið ríkisstjórninni til bjargar í erfiðu máli, um að fella húsnæðisliðinn út úr vísitölu. Það liggur fyrir mjög breiður stuðningur við það mál í þingsal. Í fyrsta lagi vill stjórnarandstaðan fá það á dagskrá. Í öðru lagi hefur formaður Framsóknarflokksins lýst yfir því að þetta sé stórmál Framsóknarflokksins til áratuga. Það verður því ekki annað séð heldur en að breiður stuðningur verði við málið ef það kemst á dagskrá. Þar sem þetta mál þarf að komast á dagskrá ásamt mörgum fleirum sem eru brýn fer ég fram á það við hæstv. forseta að hann fresti fundi meðan menn ráða ráðum sínum um það hvaða mál fara á dagskrá en skelli ekki á atkvæðagreiðslu sem er í óþökk þingmanna.