148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

mannvirki.

185. mál
[14:45]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. formanni umhverfis- og samgöngunefndar fyrir flutninginn á nefndarálitinu en vil koma nokkrum orðum að því að saga byggingariðnaðar hér á landi er býsna skjöldótt. Þar koma við sögu gallar og léleg ending en líka nokkuð hátt flækjustig þegar kemur að reglugerðum, leyfum, eftirliti o.fl. Fyrir nefndinni komu fram ýmsar ábendingar þar að lútandi og einkum varðandi stjórnsýsluna. Þetta frumvarp er unnið til að létta ýmsa þætti stjórnsýslu og er það vel.

Herra forseti. Þá fáein orð um faggildinguna, m.a. faggildingu eftirlitsaðila. Á hana er ekki lögð nóg áhersla í þessu frumvarpi að mínu mati en þó þannig að sumu leyti að það er ásættanlegt til einföldunar og því er ég samþykkur þessu nefndaráliti með fyrirvara eins og komið hefur fram. Skoðunarhandbækur eru góðar en bestar þegar fagmenn lesa þær.

Því er þannig varið á Íslandi að aðstæður við mannvirkjagerð eru nokkuð sérstæðar vegna náttúrulegs álags. Hér á ég einkum við veðurtengt álag, ég á við hitasveiflur milli frosts og þíðu sem valda frostskemmdum á byggingum, mjög tíðum, sprungumyndunum og öðru slíku. Ég minnist á vindálag sem er gríðarlegt á Íslandi oft og tíðum og eins úrkomuálag sem hefur meðal annars leitt til þess að myglusveppir eru býsna algengir hér á Íslandi.

Það eru mýmörg dæmi um það sem valda mjög alvarlegum vanda og ég hef þá talið upp bæði leka- og frostskemmdir og myglusveppagalla. Því er það svo að faggilding eftirlitsaðila í byggingariðnaði við gerð flestra mannvirkja er mikilvægt skref til mótvægis. Það ber að leggja áherslu á að koma henni í kring í áföngum á Íslandi því að það er þannig að aukinn kostnaður við byggingar vegna faggildingar við eftirlit og úttektir leiðir einfaldlega til endingarbetri mannvirkja og aukinna gæða við notkun. Af upprunalegum kostnaði hlýst í reynd sparnaður á notkunartíma mannvirkjanna.

Faggilding er því í raun og veru fjárfesting í gæðum og öryggi.