148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu og framhaldsnefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

Ástæða þess að tvö nefndarálit eru frá meiri hluta nefndarinnar er að farið hefur fram mikil og góð umræða innan nefndarinnar um þetta mál og með dyggri hjálp formanns nefndarinnar hefur gengið ágætlega að ná sameiginlegri lendingu í málinu. Af þeim sökum eru álitin tvö.

Ég ætla ekki að lesa nefndarálitin frá orði til orðs en í grunninn er um mál að ræða þar sem settar eru reglur um heimild til sölu og markaðssetningar á rafrettum og áfyllingar fyrir þær. Þetta mál er ekki nýtt af nálinni og hefur verið rætt áður á þingi. Í vinnu nefndarinnar komu fram fjölmargar umsagnir og fjölmargir gestir. Ég held að mikilvægt sé að taka fram aftur í upphafi umræðunnar að nefndin lagði í sameiningu á sig mjög mikla vinnu undir forystu formanns, sem að mínu viti skilar ágætri niðurstöðu í málinu þar sem tekið er tillit til margra þeirra athugasemda og áhyggjuefna sem komu fram við umræðu innan nefndarinnar.

Nálgun meiri hlutans, og þá erum við að tala um nefndarálit meiri hlutans með breytingartillögu, er í rauninni fyrst og síðast á þann veg að þar sem eru gerðar breytingar á frumvarpinu, eða frá frumvarpinu eins og það var lagt fyrir, er einblínt á að reyna með öllum mögulegum ráðum að auka vernd barna og tryggja með öllum tiltækum ráðum að reynt sé að forðast að aukning verði á notkun barna og ungmenna á rafrettum, eða vökvanum, veipinu. Það er andinn í því sem við segjum þar.

Það komu nefnilega fram gögn við umræðuna, rannsóknir og skýrslur frá fjölmörgum aðilum, auk þess sem ýmsir gestir lýstu áhyggjum sínum af því, um að svo virðist sem það sem er að gerast á Íslandi sé ekki alveg það sama og í nágrannalöndum okkar, a.m.k. benda gögnin sem liggja fyrir til þess að einhverra hluta vegna noti íslenskir unglingar rafrettur án þess að hafa nokkurn tímann reykt í meira mæli en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum. Við vitum ekki skýringuna á því. Það hefur verið, kannski af einhverju viti og kannski af brjóstviti, kastað fram hugmyndum um skýringar á því en ég ætla ekki að fara út í þær. Við látum það liggja milli hluta.

Nefndin gerir allnokkrar breytingartillögur, sem koma annars vegar fram í nefndaráliti meiri hlutans og hins vegar í framhaldsnefndarálitinu. Þar er veigamest, myndi ég telja, breytingartillaga um lýðheilsusjóð, að hluti af söluandvirði renni í lýðheilsusjóð. Það er m.a. gert til að mæta því markmiði sem kemur fram í frumvarpinu um að efla fræðslu með tilliti til þessa og er að mörgu leyti óábyrgt að ætla þá ekki að fjármunir komi inn til að standa straum af kostnaði við þá fræðslu sem kynni að vera. Þetta er einna veigamesta breytingin.

Ég geri ráð fyrir að framsögumaður minni hluta, hv. formaður velferðarnefndar, geri svo grein fyrir breytingartillögum minni hlutans. Margar þeirra eru algjörlega ásættanlegar. Ég geri ráð fyrir að við í meiri hlutanum munum styðja margar þeirra, enda hefur verið ágætissamstaða í nefndinni þrátt fyrir allt.

Varðandi ákvæði eins og til að mynda skammtastærðir og bragðefni og þess háttar komst nefndin að þeirri sameiginlegri niðurstöðu eftir töluverðar umræður að líklega færi best á því að slíkum ákvæðum yrði komið fyrir í reglugerð. Er það lagt til af öllum fulltrúum nefndarinnar í framhaldsnefndarálitinu.

Undir álit meiri hlutans, bara til að gæta formsins, rita hv. þingmenn Ólafur Þór Gunnarsson framsögumaður, Andrés Ingi Jónsson, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason, með fyrirvara.

Undir framhaldsnefndarálitið rita allir nefndarmenn hv. velferðarnefndar, hv. þingmenn Halldóra Mogensen formaður, Ólafur Þór Gunnarsson framsögumaður, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.