148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[15:29]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Tillagan til þingsályktunar sem um ræðir er ánægjuleg viðbót við þá umræðu sem hefur sem betur fer verið fyrirferðarmikil síðustu misserin hér á landi. Þingsályktunartillagan um þjóðarsátt — sem mér finnst eitt fallegasta orð sem ég get látið mér detta í hug — um bætt kjör kvennastétta verður því vonandi samþykkt í dag, á þessum að öllum líkindum næstsíðasta degi þingsins fyrir þingfrestun.

Í fyrra vakti það heimsathygli þegar Ísland, fyrst þjóða, innleiddi svokallaðan jafnlaunastaðal í lög landsins. Það er því mjög ánægjulegt að Alþingi skuli halda dampinum í því tilliti og standa undir hlutverki sínu með því að hafa þau mál áfram í forgangi á þingi.

Eins og fram kemur í greinargerð tillögunnar og eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talaði um áðan hefur komið fram í rannsóknum sem Hagstofa Íslands hefur unnið að konur hafi að meðaltali rúmlega 15–20% lægri tekjur, minnir mig að hv. þm. Þorsteinn Víglundsson hafi sagt áðan. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því lengur. Ef menn trúa yfir höfuð á staðreyndir, svartar á hvítu, eins og þær sem komið hafa fram við faglega skoðun á þessu málefni í áraraðir, er ekki hægt að afneita þeirri staðreynd að þrátt fyrir stór stökk í málaflokknum síðustu áratugi er raunin sú að jafnvel í dag á Íslandi, árið 2018, hallar alvarlega á konur hvað varðar laun. Eins og þingsályktunartillagan snýst að mörgu leyti um hallar á kvennastéttir. Samanborið við fjölmennar karlastéttir er það mjög alvarlegt mál og mikil skekkja sem við erum að tala um.

Eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir talaði um áður eru ljósmæður mjög nýlegt dæmi um þetta. Spurt hefur verið hvort við hefðum horft upp á jafn mikil átök ef stéttin héti ljósfeður.

Að lokum tek ég heils hugar undir þau sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti minni hlutans um að æskilegt sé að samfélagið allt lyfti hér grettistaki og að gert verði samkomulag þvers og kruss inn í atvinnulífið. Nauðsynlegur undanfari þeirrar vinnu er vönduð greiningarvinna en eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson sagði hefur sú vinna átt sér stað í mörg ár þannig að þetta er aðeins spurning um að fara í átak og taka það alvarlega.

Mig langar líka að segja að mér finnst alveg frábært hversu margir karlmenn sem starfa á þingi leiða þessa baráttu og stýra henni áfram. Mér finnst alveg frábært að karlmenn skuli standa með konum á þann hátt.

Höldum áfram að leiða baráttuna í landinu. Það er allra hagur að við gerum það.