148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:55]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum atkvæði um þingsályktunartillögu til að taka á þeim þætti sem skýrir hvað best launamun kynjanna á íslenskum vinnumarkaði, þ.e. hversu kynskiptur hann er og hversu kerfisbundið kvennastéttir eru lægra launaðar á vinnumarkaði þegar tekið er tillit til menntunar og ábyrgðar. Fyrir okkur liggja tvær breytingartillögur. Annars vegar er það breytingartillaga minni hlutans sem er minni háttar breyting frá upprunalegri þingsályktunartillögu. Ég styð hana. Breytingartillaga meiri hlutans í þessu máli, og mér þykir leitt að ekki hafi náðst samstaða í nefndinni um málið í heild, bætir að mínu viti engu við það sem þegar er gert á vinnumarkaði því að gert ráð fyrir að vinna greiningu á kynbundnum launamun, sem unnin er reglulega af Hagstofu Íslands, og hins vegar að horfa til reynslunnar af starfsmati sveitarfélaga, sem er annað orð yfir jafnlaunavottun sem þegar hefur verið lögbundin á vinnumarkaði. Ég tel því lítið gagn að þeirri breytingartillögu og þar af leiðandi af þingsályktunartillögunni verði hún samþykkt í þeirri mynd. Ég hvet þingheim eindregið til að sýna samstöðu um að taka á kynbundnum launamun á vinnumarkaði með samþykki tillögu minni hlutans.