148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[19:08]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp er ágætt dæmi um það þegar við í góðum ásetningi gerumst samfélagsverkfræðingar í þeirri trú að við getum leyst öll vandamál heimsins, öll vandamál sem við þurfum við að glíma við. Því miður erum við að rata á villigötur. Það sem ég óttast að gerist með þessu frumvarpi og öðru sem kemur síðar til atkvæða er að við finnum út þau stjórnarskrárvörðu réttindi sem eru heilög, en í 65. gr. segir að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþátta, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þegar við teljum ástæðu til að setja í lög það sem tryggt er í stjórnarskrá þynnum við út stjórnarskrána og merkingu hennar. (Forseti hringir.) Þetta frumvarp bætir engu við það sem segir í stjórnarskrá og öðrum lögum. Því get ég ekki stutt frumvarp hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra.