148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja varðandi orð hæstv. samgönguráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, að það að mál séu vanreifuð er nú stærra vandamál hjá ríkisstjórnarflokkunum en stjórnarandstöðuflokkunum þegar kemur að þessum þinglokum. En af því að ég veit að hv. þm. Óli Björn Kárason hefur ekki farið rangt með viljandi: Ástæða þess að þetta þingmál Miðflokksins var ekki á dagskrá þingfundar í gær var sú að ekki var búið að útbýta nefndarálitum. Nefndarálit komu ekki til þingsins í gær. Bara svo það sé sagt. Hann sagði að við hefðum haft þetta fyrir framan okkur í fjóra daga.

Ég tek undir orð hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur. Ég held að nú væri lag að forseti gerði stutt fundarhlé til að sjá hvort ekki sé hægt að ná einhverri niðurstöðu og sátt um þetta mál því að það er ótækt að einn stjórnarandstöðuflokkur sitji undir því að hans mál fái afgreiðslu í fullkominni ósátt en aðrir stjórnarandstöðuflokkar (Forseti hringir.) fái sín mál afgreidd þannig að sátt sé um. (Forseti hringir.)Það er auðvitað það sem á að gera með mál okkar Miðflokksmanna.