148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[14:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég skora á forseta að gera hlé á fundinum og kalla til fundar með formönnum. Að segja að við í Miðflokknum höfum skipt um hest í miðri á er algjör fásinna. Það voru tvö mál sem við tókum inn til umræðu og síðan var talað um að eitt mál myndi koma til afgreiðslu. Við kusum að taka þetta mál. Það er ekki hægt að segja að við höfum skipt um hest úti í miðri á.

Mér þykir mjög undarlegt að ekki megi fara í atkvæðagreiðslu um þetta mál. Ég tek undir með öðrum þingmönnum, það er kannski einhver hræðsla við að þjóðin sjái hug þingmanna í málinu. Það varðar 100 þúsund heimili á landinu, kjör fólks, almennings. Þessi verðtryggingarmál eru draugur sem hvílt hefur yfir þjóðinni í mörg ár. Við í Miðflokknum höfum sýnt þann kjark að leggja af stað til að kveða niður þann draug.