149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Kæru Íslendingar. Hér stöndum við í dag, rúmum níu mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók til starfa. Um þetta leyti eru eflaust að fæðast börn sem komu undir um svipað leyti og stjórnin og þau eru lífsins kraftaverk. Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um störf ríkisstjórnarinnar. Þar er lítið líf í mönnum og kraftaverkin eru fá ef nokkur. Formenn ríkisstjórnarflokkanna virðast hins vegar sjálfir líta svo á að um stórfenglegt kraftaverk hafi verið að ræða með myndun ríkisstjórnarinnar, að sögulegar sættir hinna svokölluðu andstæðu póla í vinstri-hægri pólitíkinni hafi tekið höndum saman. En hvað tóku þessir flokkar nákvæmlega saman höndum um? Með gjörólíka hugmyndafræði, héldu menn. Á síðustu níu mánuðum hefur það skýrst betur og betur hvar þessir flokkar ná saman. Þeir standa saman um kyrrstöðu og völd.

Það er a.m.k. af sem áður var þegar forystumaður Vinstri grænna stóð hér í pontu fyrir einhverjum árum og lýsti því yfir að Vinstri græn myndu aldeilis ekki bregðast hlutverki sínu sem hinn eiginlegi og eini hugmyndafræðilegi og pólitíski höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins á Íslandi. Það voru því vissulega merkileg tímamót í sögu Vinstri grænna þegar flokkurinn myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki eftir að hafa talið bæði sjálfum sér og kjósendum sínum trú um að þau stæðu fyrir eitthvað allt annað. Og nú talar sami flokkur fyrir því að efla traust á stjórnmálum — sem við fögnum. En um hvað snýst traust annað en að vera trúr því sem maður boðar og predikar fyrir kosningar? Vinstrihreyfingin – grænt framboð virðist a.m.k. hafa gefist upp á því að vera stóra mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn. Eftir situr sú staðreynd að hin pólitíska víglína hefur breyst, jafnvel umturnast, og þessir fyrrnefndu andstæðu pólar eru ekki svo ólíkir þegar allt kemur til alls. Hvar sem borið er niður vilja þau engu breyta. Það kallast íhaldssemi. Jafnvel afturhald. Breytingar sem þó hefðu í för með sér raunverulegar kjarabætur og stöðugleika fyrir íslensk heimili, launþega og fyrirtækin í landinu.

Og ég er ekki byrjuð að ræða það réttlæti sem felst í því að þjóðin fái sanngjarnt gjald fyrir auðlindir sem eru okkur sameiginlegar eða afnema löngu úreltar samkeppnishindranir, hvað þá rót vandans — krónuna — sveiflukónginn sjálfan sem að sjálfsögðu má ekki ræða. Við vitum að með breyttri peningastjórn og meiri aga er hægt að lækka kostnað heimilanna sem er margfaldur hér miðað við þau lönd sem við berum okkur alla jafna saman við. Tillögu okkar í Viðreisn um ódýrara Ísland höfum við nú þegar kynnt og munum fylgja eftir en vegna þessa alls mun reyna á okkur, frjálslyndu öflin á þingi, að veita ríkisstjórninni aðhald. Við teljum að valddreifing sé af hinu góða, að gegnsæi sé undirstaða lýðræðis og trausts og að almenningur geti treyst því að hin ýmsu kerfi sem stjórnmálamenn hafa byggt upp í gegnum árin séu fyrir alla, ekki bara suma.

Pólitísk orðræða breytist með nýjum pólitískum ásum því að við sjáum einnig að ákveðin afturhalds- og einangrunaröfl með slettu af þjóðernislegu ívafi reyna eins og þau geta að hafa áhrif á umræðuna. Þá verðum við sem trúum á frjálst, opið, markaðssinnað samfélag aftur að spyrna við fótum og rísa upp þegar afturhaldsöfl vilja breiða úr sér í samfélaginu, hvort sem þau vinna gegn tímabærum breytingum í mannréttinda- og jafnréttismálum eða vilja draga okkur út úr ábatasömu, alþjóðlegu samstarfi, eins og EES-samstarfinu. Þegar við horfum til Bandaríkjanna vonum við að skynsamlega þenkjandi repúblikanar stöðvi vitleysuna í Trump. Það sama gildir hér heima, við vonumst til þess að frjálslynt fólk, sama hvar í flokki það stendur, reyni að sporna við þessari þróun, segi stopp við trumpara þessa lands.

Kæru landsmenn. Við erum hér til þess að ræða stefnuræðu forsætisráðherra sem ég hélt satt best að segja að myndi veita okkur einhver fyrirheit inn í framtíðina. Eftir að hafa hlustað á ræðuna verð ég hins vegar að segja að innihaldið er ansi rýrt. Brellumeistarar og umbúðahönnuðir stjórnarflokkanna hafa hér haft meira að segja en pólitískar hugsjónir og metnaður til raunverulegra umbóta á samfélaginu okkar. Til þess að gæta þó allrar sanngirni vil ég draga fram að ákveðnir þættir í stefnunni í loftslagsmálum eru mjög spennandi þótt þeir séu líka gamalkunnugir. Og ég vona að forsætisráðherra sé þegar búinn að tryggja sér stuðning allra þingmanna stjórnarflokkanna því að enn sitja sumir þeirra á þingi sem mest spyrntu við fótum á síðasta ári og voru háværir þegar sömu hlutir voru ræddir í þessu samhengi.

Vinstri græn verða að horfast í augu við það og sætta sig við þá gagnrýni að þau eru einfaldlega millistykkið sem tengir þessa gamalgrónu flokka saman. Þannig er íhaldsþrennan fullkomnuð, þrenna sem heldur hlífiskildi yfir þeim sérhagsmunum sem þingmenn Vinstri grænna hafa reyndar hér í þessum sama ræðustól gagnrýnt, allt að því froðufellandi, í gegnum tíðina. Að sýna sitt rétta andlit tók þau ekki nema nokkra mánuði fyrir utan það að vera byrjuð á harðahlaupum undan ekki ársgömlum stjórnarsáttmálanum.

Því hlýt ég að spyrja, herra forseti: Hver verður afrekaskrá ríkisstjórnar Vinstri grænna? Verður hún kannski sú að stórlækka veiðigjöld á sjávarútveginn í stað þess að skapa sátt og leita sanngjarnra lausna fyrir sameiginlega auðlind þjóðarinnar? Verður hér niðurlæging forystuflokksins í ríkisstjórn algjör? Hvað með menntamálin? Um þau er varla stafkrókur í ræðu forsætisráðherra. Og til að bíta höfuðið af skömminni eiga námsmenn enn og aftur að bíða eftir nýju lánasjóðsfyrirkomulagi sem setið hefur á hakanum allt of lengi. Og verður það eitt af afrekaskránni að öryrkjar þurfi áfram að bíða eftir þeirri sjálfsögðu réttarbót að afnema krónu á móti krónu skerðinguna?

Og hvað með heilbrigðismálin? Verða biðlistar á biðlista ofan á afrekaskrá ríkisstjórnarinnar? Hér á landi er fólk í alvörunni á biðlista eftir viðtalstíma til að komast á áframhaldandi biðlista vegna aðgerðanna sjálfra. Verða sjúklingar áfram sendir í hrönnum til Svíþjóðar eftir áralanga bið sem veldur frekari heilsuspjöllum og fjártjóni? Þetta er auðvitað allt brenglað. Allt vegna þess að ekki má leita til sjálfstætt starfandi lækna og ríkisstjórnin neitar að nýta kosti ólíkra rekstrarforma í þágu sjúklinga. Á þessu ber Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað líka ábyrgð.

Stefna okkar í Viðreisn er skýr, sjúklingurinn er í forgangi og hann á að fá bestu þjónustu óháð efnahag. Þegar allt kemur til alls er hér starfandi ríkisstjórn sem ekki mun rugga bátnum valdanna vegna og á meðan sitja helstu bakhjarlar stjórnarflokkanna brosandi hjá, nokkuð ánægðir með sitt fólk. Þeirra er uppskeran. Þannig mun ríkisstjórnin halda velli og Katrín Jakobsdóttir tryggja sína arfleifð sem fyrsti forsætisráðherrann í fimm ár til að klára heilt kjörtímabil.

En ég óttast að verðmiðinn verði dýrkeyptur fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Brýnum hagsmunamálum er slegið á frest, enn og aftur.

Kæru Íslendingar. Litla ríkisstjórnarbarnið sem við hefðum svo gjarnan viljað sjá koma í heiminn og ná þessari breiðu skírskotun um stór og mikilvæg mál var í raun aldrei neitt meira en hugmynd. Í stað þess að vera nú að sjá eitthvað fallegt fæðast, sem okkur var talin trú um að myndi breyta hinni pólitísku sviðsmynd, erum við að horfa upp á ákveðna tálsýn og vonbrigði, hugmynd sem gengur ekki upp því að einsleitnin ræður för og kjarkleysið til umbóta er hrópandi.

Þegar þessi sviðsmynd blasir við er hlutverk okkar í Viðreisn, sem málsvara frelsis, jafnréttis og alþjóðasamstarfs, mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Það er hlutverk sem við tökum alvarlega.

Lifi fjölbreytileikinn. Alltaf. Alls staðar.