149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég spurði tveggja einfaldra spurninga og fékk svar við hvorugri: Hvert er kostnaðamatið á þeim aðgerðum sem ráðherra er að boða þarna og hvar er þá fjármagnið? Báðar þessar aðgerðir eru tilgreindar í stefnu ríkisstjórnarinnar og það hlýtur að hafa verið tekið tillit til þeirra í fjármálaáætlun. Ég trúi ekki að ráðherra hafi bara lagt fram einhverja ágiskun um hvað hann ætlaði að gera á kjörtímabilinu án þess að hafa neina kostnaðargreiningu á bak við þau stefnumál sem hann væri að leggja fram.

Ég sé hana ekki og það grefur undan trúverðugleika fjármálaáætlunar ef ríkisstjórn leggur af stað með skýra stefnu, kostnaðarmetur hana ekki í fyrstu fjármálaáætlun sinni og segir: Þetta er nú svona til viðmiðunar og við bara uppfærum hana eftir þörfum. Það er ekki boðlegt.

Ég nenni ekki að svara útúrsnúningum ráðherra varðandi mína gagnrýni á útgjaldaaukningu. Ég hef sagt mjög skýrt að ég gagnrýni ekki forgangsröðun ríkisstjórnarinnar varðandi velferðarmál eða heilbrigðismál, hún er sú sama og hjá fyrri ríkisstjórn. Ég gagnrýni hins vegar að það verður ekki innstæða fyrir þeim útgjaldaloforðum sem hér eru gefin til lengdar nema farið verði í umtalsverðar skattbreytingar, skattahækkanir, svo við tölum nú skýrt.

Það sem vakti hins vegar athygli mína voru yfirlýsingar hæstv. ráðherra varðandi mögulegar skattbreytingar og ágætar hugleiðingar hv. þm. Óla Björns Kárasonar um stiglækkandi persónuafslátt sem eiga uppruna sinn í samráðsvettvangi um aukna hagsæld. Ég held að það væri einmitt mjög öflug og góð breyting, sérstaklega fyrir örorkulífeyrisþega, fyrir eldri borgara, fyrir lágtekjufólk almennt í samfélaginu þar sem við beinum þessum stuðningi raunverulega að lágtekjuhópum. Þetta var eitt af stefnumálum okkar fyrir síðustu kosningar og þarsíðustu kosningar og ég veit ekki betur en að það hafi verið stefnumál Framsóknarflokksins og kosningaloforð Framsóknarflokksins að ráðast í slíkar breytingar á tekjuskattskerfinu, en ráðherra blés á það í raun og veru og sagðist ætla að fara einhverja allt aðra leið. Ég spyr nú bara: Ætlar Framsóknarflokkurinn ekki að standa við kosningaloforð sín um breytingar á skattkerfinu sem voru ágætlega útfærðar í fyrrnefndum kosningaloforðum?