149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[17:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrsta flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu, kærlega fyrir frábæra framsöguræðu. Það er hægt að taka undir hvert einasta orð sem hv. þingmaður sagði. Ég ætla að staldra aðeins við þetta síðasta, varðandi kerfið. Við erum búin að fara með mál hér í gegnum þingið en eigum líka börn sem eru með alls konar þarfir og við lifum alls konar lífi. Það er alveg merkilegt hvað við erum stundum lunkin við að byggja upp kerfi sem hafa innbyggðar hindranir, sjálfkrafa hindranir sem við viljum ekkert endilega, eða hringtorg innan kerfanna. Það er hægt að taka mjög ólík svið, t.d. það sem við ræddum áðan um afhendingaröryggi á raforku og fleiri mál, uppbyggingu vega. Það er eins og kerfið hindri framgang góðra mála. Við erum margoft búin að sýna það einmitt að við getum farið aðrar leiðir, við Íslendingar, ef við þorum að segja: Nei, vissulega hafa aðrar þjóðir ekki farið nákvæmlega þessa leið en við ætlum að gera það af því að við teljum það rétt. Við teljum það vera í þágu þeirra sem málið fjallar um og í þessu tilviki erum við að tala um málefni fatlaðra. Fatlaðir eru ekkert alltaf allir sjálfkrafa með talsmenn, hvort sem það er innan fjölskyldunnar eða hjá hagsmunasamtökum sem þeir geta leitað til, af því að fatlaðir eru mjög mismunandi. Þeir reiða sig oftar en ekki á að umhverfið sé þannig byggt upp að við tökum utan um þá og tökum undir ef þeir þurfa á hjálp að halda.

Það er gott að hv. þingmaður fór yfir í fyrsta lagi undirritunina á sínum tíma, 2007, síðan var fullgildingin að mig minnir 2016, og núna lögfestingin. Það var ótrúlega mikilvægt skref sem við tókum að fullgilda samninginn en við viljum ekki standa frammi fyrir því ef einhver mál koma upp í samfélaginu sem tengjast einmitt þessum hópi sem þarf okkar aðstoð að málinu verði þannig fyrir komið að sagt verði: Nei, því miður, það er ekki búið að lögfesta samninginn. Þingið er ekki búið að klára þetta.

Við megum ekki standa eftir með það hér að hafa ekki farið með málið alla leið. Ég fagna því sérstaklega að sjá fólk úr öllum flokkum hér á þingi að mér sýnist. Við eigum að nýta þá samstöðu og þann skýra vilja úr öllum flokkum til að koma þessu máli í gegn. Það þarf ekki að taka svo mikinn tíma, við þekkjum öll þetta mál, það hefur verið áður til umræðu þannig að ég bind vonir við að við eigum að geta verið búin að afgreiða málið úr nefnd og inn í þing fyrir jól. Við í Viðreisn og ég sem einn af flutningsmönnum þessa máls munum að sjálfsögðu beita okkur fyrir því.

Um leið og þetta er gríðarlega mikilvægt mál eins og ég gat um áðan, og það getur vel verið að það verði til þess að réttur fatlaðra verði enn ríkari og enn tryggari en hann er í dag, þá er freistandi að benda líka á það að við verðum að halda áfram að hugsa um hvað er hægt að gera betur. Ég horfi hér á marga þingmenn sem eru miklir baráttumenn fyrir öryrkja, fatlað fólk og ýmsa fleiri hópa í samfélaginu. Við eigum að hvetja okkur öll saman áfram á jákvæðum nótum. Auðvitað er hægt að gagnrýna ríkisstjórnina, það er hægt að gagnrýna stjórnvöld á hverjum einasta tíma, en ég vil leyfa mér að fullyrða að í hverri einustu ríkisstjórn sem setið hefur hér á umliðnum árum hefur alltaf verið ríkur vilji til að gera aðeins betur. Það hefur þurft að taka sársaukafullar ákvarðanir um að forgangsraða, m.a. fjármunum, og mönnum finnst ekki alltaf nóg að gert. Það er aldrei nóg að gert þegar kemur að fötluðum. Það er bara þannig, við þurfum að þora að segja það.

Að eiga fatlað barn í dag er auðvitað miklu betra en það var fyrir tíu árum, hvað þá 20 og hvað þá 30 árum þegar manneskja eins og ég, sem er orðin mjög gömul, fer í gegnum skólakerfi sem er þannig að við hittum aldrei fötluð börn. Þau voru bara í sérskóla. Við fengum ekki að kynnast fjölbreytninni, lífsgæðunum sem fylgja því að kynnast fólki með ólík viðhorf og ólíkar skoðanir, ólíkar þarfir og mismunandi tækifæri í lífinu. Það er þess vegna sem er m.a. mikilvægt að við höfum það hugfast sem stendur svo skýrt m.a. í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að tryggja alltaf fötluðu fólki jafna stöðu á við aðra. Það er einmitt tilgangur þessa samnings Sameinuðu þjóðanna, jafnréttissamningsins, það þarf að tryggja fötluðu fólki jafna stöðu á við aðra. Þessi staða er ekki sjálfgefin, hún var allt önnur eins og ég gat um fyrir 10, 20 árum, hvað þá 30 eða 40 árum. Við verðum að halda áfram að gera betur og ég vil hvetja okkur öll hér inni til að nýta kraftana, þessa samstöðu í þágu þeirra sem við elskum og viljum gera enn betur við.

Það er auðvitað ótrúlega freistandi að nefna frekara nám eða atvinnu, af því að slíkt mál er nýkomið upp, og það liggur mjög á fólki sem er með börn sem eru að útskrifast úr framhaldsskóla, af starfsbraut í framhaldsskóla, og er að fara út í lífið. Það eru ekki nema örfáir sem hafa komist inn í diplómanámið uppi í Háskóla Íslands sem var komið á á sínum tíma. Og hvað er hægt að gera? Það hættulegasta sem við gerum er ef við segjum bara: Ja, nú er þetta búið og síðan er það í raun háð velvild einstaklinga hvert er farið eftir starfsnám og eftir framhaldsskóla. Við þurfum líka að stuðla að aukinni vitundarvakningu, m.a. úti í atvinnulífinu, en það væri líka gott ef t.d. stjórnvöld og ráðuneyti tækju þar frumkvæði — ég hef sjálf reynslu af því, ég reyndi að opna ráðuneytin, bæði upp á starfsdaga, upp á að taka nema í starfsþjálfun — og fengju fólk inn til sín, alla vega í tímabundna vinnu, það væri hægt að auka sveigjanleika ríkisins til að fá fólk til sín tímabundið í hugsanlega eitt ár, tvö eða þrjú ár með mismunandi starfsgetu. Það er hægt með ákveðnu skipulagi innan Stjórnarráðsins. Ég held að það myndi bæta líka stjórnsýsluna og vinnuumhverfið. En þetta er hluti af því sem við þurfum að huga að og ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra sé farin af stað með vinnu sem fer yfir þetta. Ég vona að sú vinna taki skamman tíma því að þessi hópur, þessir unglingar, 18 ára, 20 ára og eldri, þurfa á svörum að halda. Svarið er ekki að vera heima og eingöngu í tölvuleikjum. Svarið er að allir eiga að fá tækifæri til að vera þátttakendur í íslensku samfélagi á eigin forsendum. Þannig samfélag held ég að við séum öll sammála um að byggja upp.

Ég vil enn og aftur þakka hv. fyrsta flutningsmanni fyrir þetta mál. Það minnir okkur á það sem við getum gert hér inni, þetta minnir okkur á það að þora að taka pólitískar ákvarðanir óháð því hvað aðrar þjóðir eru að gera. Við eigum að fara lengra, taka þennan extra kílómetra umfram aðra ef við þurfum á því að halda til að jafna stöðu fatlaðra í samfélaginu. Að því sögðu hvet ég þá sem eru í þeirri nefnd sem málið fer til að afgreiða það fljótt og vel og í samstöðu því að samstaðan er til staðar.