149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá neinum í þessum sal að nú stendur samgönguvika yfir. Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í því samevrópska verkefni á þessum tíma árs en markmið verkefnisins er að ýta undir og auka umræðu um sjálfbærar samgöngur.

Við höfum í þingsal verið að ræða fjárlagafrumvarpið og mörg okkar bíða spennt eftir umræðu um nýja samgönguáætlun. Nýverið kynnti umhverfisráðherra svo áætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum en þar er m.a. fjallað um mikilvægi þess að styrkja almenningssamgöngur, styðja við hjólreiðar og auðvelda fólki að lifa bíllausum lífsstíl. Ég tek heils hugar undir þau markmið, ekki vegna þess að ég vilji skikka alla í strætó eða út að hjóla. Mörg okkar og líklega flest munum við á ákveðnum tíma vera háð okkar einkabíl því að hann er bæði þægilegur og góður samgöngumáti. Nei, ég vil auka fjölbreytnina og virða valfrelsi einstaklinga þegar kemur að samgöngum.

En það er auðvitað þannig, sérstaklega hér á þéttbýlasta svæði landsins, að við getum ekki haldið áfram óbreyttum lífsstíl. Það sér hvert mannsbarn. Það er mikilvægt að bæta almenningssamgöngur og virka samgöngumáta þannig að fleiri sjái kosti í því að velja þá leið. Erum við þá ekki á villigötum þegar við hér í þessum sal ræðum almenningssamgöngur og umræðan er fyrst og fremst drifin áfram af þörfum landsbyggðarinnar? Það er ýmislegt sem má gera miklu betur úti á landi og þá vil ég fyrst nefna orkuöryggi og almennar vegasamgöngur, en ef við ætlum að ná árangri, þegar kemur að almenningssamgöngum og loftslagsmálum, þarf áhersla okkar að vera hér á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í.) Þess vegna þurfum við að tryggja fjármögnun, bæði borgarlínu og nauðsynlegra breytinga á stofnvegakerfinu, til að tryggja öryggi (Gripið fram í.) og greiða fyrir umferð hér á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)