149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Þegar kennarinn kemst í ræðustól á Alþingi nýtir hann að sjálfsögðu tækifærið til að ræða menntun og stöðu barna og unglinga. Þegar við ræðum um menntun er tími og gagnrýnin hugsun lykilatriði, tími til að leyfa breytingum að eiga sér stað og gagnrýnin hugsun til að gera mistök.

Í umræðunni verðum við að forðast að fara pólanna á milli. Það eru til aðrir valkostir en að banna símanotkun yfir í algert frelsi barna og ungmenna með símann. Hér í þessum ræðustól höfum við heyrt því fleygt að drengir geti ekki lesið sér til gagns sem er auðvitað rakalaus vitleysa. Svona sveiflast einmitt umræðan pólanna á milli og veldur því að við náum ekki að þroskast.

En breytingar munu ekki eiga sér stað ef við höldum okkur við sömu gömlu aðferðirnar og óbreytta afstöðu til menntunar, þ.e. að 20–25 börn í lítilli kennslustofu með einum fullorðnum kennara séu í 40 mínútur í senn að læra afmarkað námsefni sem börnin hafa ekkert um að segja. Hvernig á hver og einn að njóta menntunar við hæfi þegar við notum viðmiðunarstundaskrá sem mælir mínútur í hverri námsgrein?

Leiðin til breytinga í samfélaginu er í gegnum skólakerfið, að kenna ungu fólki gagnrýna hugsun í stað þess að leggja áherslu á mælanlegan námsárangur.

Í vikunni þreyta allir nemendur í 7. bekk samræmd könnunarpróf. Það er í raun óskynsamlegt að horfa um of á mælanlegan námsárangur hvers nemanda. Það er réttur hvers barns að njóta menntunar, við erum öll sammála um það sem sitjum hér inni enda er kveðið á um það í lögum. Hins vegar er engin vissa fyrir því að þessum rétti sé fullnægt. Við gætum bætt við lögin einhverju á þá leið að hvert barn eigi rétt á að njóta þeirrar menntunar sem það hefur gáfur til, hljómar vel og gerir kröfur á skólakerfið og samfélagið að veita í kerfið aukna fjármuni, veita því meiri athygli og umræðu meðal fólksins. Það gerir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra líka með sóma.

Ég vil af þessu tilefni engu að síður segja að íslenskt menntakerfi er alltaf í sókn. Við þingmann Miðflokksins sem fellur í þá pólagryfju að kastast til og frá til að henda hér fram einhverjum fullyrðingum vil ég segja að hann þarf að kynna sér málið betur.