149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þannig að þetta er rétt skilið hjá mér, við munum hægt og rólega sjá aukna skattbyrði út af þessu. Ég skil ágætlega hvað fjármálaráðherra er að fara í þessu og auðvitað er það alveg rétt að vörnin af verðtryggingunni er raunveruleg einmitt á þeim tímum þegar við fáum verðbólguskot og raunveruleg kaupmáttarrýrnun á sér stað. Sem betur fer er það frekar undantekningin en hitt hjá okkur, það er miklu algengara að við sjáum laun hækka jafnvel talsvert umfram verðlag.

Þetta gæti orðið mjög áhugaverð umræða í efnahags- og viðskiptanefnd en ég held að heilt yfir til lengri tíma litið sé miklu heppilegra að við stillum skattkerfið okkar af miðað við tekjutíundir þeirra sem við getum kallað fullvinnandi fólk þannig að skattbyrði þeirra tekjulægstu sé sambærileg og fólk njóti þá góðs af kaupmáttaraukningu, að skattbyrðin sé ekki að aukast þegar við horfum á kaupmáttaraukningu heilt yfir hagkerfið okkar.

Hitt er hættan að það magni svolítið hin sveiflukenndu ríkisfjármál að kaupmáttur ríkisins sé að vaxa mjög mikið á tímum uppsveiflu, þ.e. að skatttekjur hækki meira en ella af því að kaupmáttur er að aukast og skattbyrði hlutfallslega að aukast hjá einstaklingum. Þar af leiðandi koma enn meiri tekjur í ríkissjóð þegar vel gengur, þegar við þurfum einmitt að halda aftur af útgjaldaaukningunni. Eins og dæmin sýna í gegnum tíðina, ekki bara í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum nú heldur áratugi aftur í tímann, höfum við tilhneigingu til að eyða þeim peningum sem koma í ríkiskassann, og sérstaklega þegar vel árar.