149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:33]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í barnabætur. Við í Samfylkingunni og fleiri höfum haft talsverðar áhyggjur af barnabótakerfinu. Við sjáum að undanfarin ár hefur fjórðungur þess hóps sem fékk barnabætur á árum áður dottið úr því kerfi vegna skerðinga.

Auðvitað er fagnaðarefni að nú sé lagt til að barnabætur skerðist ekki langt undir lágmarkslaunum. En ég minni á að einungis eru nokkrir mánuðir frá því að við lögðum slíka breytingu einmitt til í þessum sal. Sú breyting var felld af hálfu allra ríkisstjórnarflokkanna. Barnabætur, eins og staðan er í dag, byrja að skerðast við 242 þús. kr. á mánuði, sem er langt undir lágmarkslaunum. Við fögnum því breytingunni.

Að sama skapi er, með þessari hækkun í barnabætur, verið að auka skerðingarnar hjá millitekjufólki. Við sjáum að hafi viðkomandi 460 þús. kr. á mánuði í laun eða meira eykst skerðingin. Var 4% með einu barni, verður 5,5%, 6% skerðing breytist í 7,5%, 8% skerðing breytist yfir í 9,5% skerðingu séu börnin orðin þrjú.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Þessi hækkun á skerðingarhlutföllum, hvað kostar hún íslensk heimili? Hann er að lyfta aðeins barnabótum á botninum en að sama skapi er hann að herða á skerðingarólinni hjá millitekjuhópnum. Ég minni á að 460 þús. kr. eru ekki sérstaklega há laun. Nú eru að koma nýjar tölur sem sýna að miðgildislaun í landinu eru 618 þús. kr. og meðallaunin eru um 710 þús. kr. þannig að enn erum við að skerða barnabætur langt undir meðal- og miðgildislaunum. Enn er við lýði þessi nálgun sem við höfum verið að gagnrýna, að barnabætur séu einhvers konar fátækrastyrkur. Af hverju (Forseti hringir.) er ekki staðið myndarlegar að málum þegar kemur að barnabótum? Það eru fyrst og fremst þessar tölur sem ég er að kalla eftir hjá hæstv. ráðherra.