149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig rétt að við erum að auka skerðingarprósentuna þegar menn eru komnir með millitekjur og þar fyrir ofan. Þá vegur á móti að við erum að hækka sjálfar bæturnar þannig að þeir sem eru í þessum hópi koma um það bil niður á sama stað þrátt fyrir auknar skerðingar vegna þess að grunnbæturnar hækka. Það er ekki verið að taka barnabætur af því fólki heldur tryggja því nokkurn veginn jafnstöðu.

Hins vegar er lögð áhersla á að sú viðbót sem við ætlum að setja nú inn í barnabótakerfið komi sérstaklega þeim til góða sem eru lægst í launum; barnafjölskyldunum, ungu fólki, fólki með barn undir sjö ára aldri og á lágum launum; námsmönnum, fólki sem er að hefja lífið og er nýlega komið út á vinnumarkaðinn, er í sínu fyrsta starfi; fólki sem er komið lengra með börn en samt sem áður í lægri launastiga. Þetta fólk fær sérstakan stuðning.

Það er svo önnur umræða hvort við eigum almennt að setja meira en 10–12 milljarða út í barnabótakerfið. Ég myndi nú ekki vilja taka undir það að við lítum á barnabótakerfið sem fátækrastyrk. Við höfum dæmi um það í dag að einstæðir foreldrar, sem eru jafnvel komnir með milljón á mánuði í laun, fái barnabætur. Við erum langt frá því að vera með kerfi sem er sniðið að þeim sem eru eingöngu niðri við það að geta framfleytt sér. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við ættum, ef við höfum svigrúm, frekar að leggja áherslu á að lækka hina almennu skattprósentu en að halda áfram að greiða út bætur til fólks sem er komið yfir meðallaun. Það er bara hugmyndafræðilegur munur hjá okkur hv. þingmanni.