149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þetta frumvarp sem er auðvitað lagt fram í tengslum við fjárlagafrumvarpið sem við ræddum fyrir helgi. Ég ætla að fara aðeins yfir það.

Eins og hæstv. fjármálaráðherra gat um eru hér gerðar ýmiss konar skattalagabreytingar og breytingar á bótakerfunum, annars vegar til að bæta í eða auka álögur á almenning í landinu. Breytingar á tekjuskatti sem hér eru undir er fyrst og fremst þessi 1% viðbótarhækkun á persónuafslættinum sem ég ætla að fjalla aðeins um á eftir. Það er sem sagt 1% hækkun umfram það sem ber að gera samkvæmt lögum. Síðan er það sambærileg tenging tekjumarka í efra þrepi tekjuskatts og gildir um persónuafsláttinn. Svo er verið að breyta viðmiðunarfjárhæðunum barnabóta og vaxtabóta og lækka tryggingagjald.

Þessi breyting varðandi persónuafsláttinn er áhugaverð, þá er ég að tala um að samkvæmt gildandi lögum skulu fjárhæðarmörk milli neðra og efra þreps tekjuskattsstofns taka breytingum í upphafi hvers árs í hlutfalli við hækkun á launavísitölu. Persónuafslátturinn hefur hins vegar tekið breytingum miðað við neysluverðsvísitölu. Hérna er verið að samhæfa uppfærsluna. Það er sagt í frumvarpinu að þessi mismunandi uppfærsla hafi verið gagnrýnd talsvert þar sem launavísitalan hefur hækkað verulega umfram vísitölu neysluverðs. Þetta eru tvær mismunandi vísitölur. Laun hafa verið að hækka hér á landi og þar með bjagað skattbyrði tekjuskattsins til hagsbóta fyrir þá tekjuhærri.

Það er áhugavert, og er auðvitað alveg augljóst, að hið gagnstæða gerist þegar vísitala neysluverðs, þessi aðalvísitala sem svo margt styðst við, hækkar umfram laun eins og gerðist á árunum eftir hrun. Það minnir mig svolítið á umræðuna um hvort húsnæðisliðurinn eigi að vera í vísitölunni eða ekki. Menn hafa verið að draga fram að það sé nú svo óheppilegt að hafa húsnæðisliðinn í vísitölunni. Ég er ekkert endilega á því. Ég minni á að árið 2010 og 2011 var það til hagsbóta fyrir íslensk heimili sem áttu verðtryggð lán að hafa húsnæðisliðinn í vísitölunni því að þá var ástandið á húsnæðismarkaðnum með þeim hætti. Það væri miklu skynsamlegra, held ég, að skoða hugmyndir um að líta til húsnæðisverðs til lengri tíma og hafa slíkar breytingar sem hluta af vísitölunni. Svíar t.d., er mér sagt, gera það með þeim hætti. En það er kannski önnur umræða.

Vísitölur sér eru bara að mæla í sjálfu, eru mælieiningar, og síðan er önnur umræða við hvaða vísitölu er stuðst, hvort sem það varðar verðtryggð lán eða eitthvað annað. Ég vildi aðeins nefna þetta í framhjáhlaupi.

Við í Samfylkingunni og fleiri að sjálfsögðu höfum gagnrýnt svolítið að hér er verið að hækka persónuafsláttinn svo lítið. En það er mjög áhugaverð setning hérna sem ég vil lesa upp sem staðfestir svo margt sem við í Samfylkingunni höfum sagt mjög lengi. Með leyfi forseta:

„Ljóst er að hækkun á persónuafslætti, sem er föst krónutala, vegur þyngra en lækkun á skatthlutfalli gagnvart þeim tekjulægri en þeim tekjuhærri þegar horft er á jöfnunaráhrif kerfisins.“

Þetta stendur í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra. Í okkar huga er þetta að sjálfsögðu augljóst en við höfum aldeilis tekist á um það í þessum sal og fyrir utan hvort það væri skynsamlegra og kæmi betur út fyrir almenning að breyta tekjuskattshlutfallinu flatt eins og til stóð, eins og stendur víða í fjármálaáætluninni sem er stóra plaggið sem við afgreiddum fyrir sumarhlé, eða hvort við ættum að breyta persónuafslættinum. Það er svo augljóst að hér hafa átt sér stað einhvers konar átök á milli stjórnarflokkanna því maður heyrði Sjálfstæðismenn og þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra tala frekar fyrir því að við ættum að lækka tekjuskattshlutfallið, það væri skynsamlegri leið, að lækka prósentuhlutfallið. Ég benti nú á að sú leið að lækka tekjuskattshlutfallið myndi gagnast þingmanninum þrisvar sinnum meira, hann fengi þrisvar sinnum hærri krónutölulækkun í sköttum en einstaklingur á lágmarkslaunum. Við bentum á að þetta væri ósanngjörn leið. Að lækka tekjuskattinn um 1 prósentustig gerir 14 milljarða, ef það er gert í einu skrefi. Það er hægt að gera ýmislegt fyrir 14 milljarða. Við höfum frekar talað um að nota þessa 14 milljarða í að bæta í bótakerfið eða gera einhverjar breytingar á persónuafslættinum.

Hér er svart á hvítu tekið undir það að ef markmiðið er að auka jöfnuð, eins og við í Samfylkingunni höfum verið að kalla eftir og mjög margir á meðal þjóðarinnar, myndi ég segja, þá er betra að líta á persónuafsláttinn heldur en að fikta með lækkun á skatthlutfallinu sjálfu. Það er auðvitað heilmikil pólitík í þessu. Ég átta mig á að það eru ekki allir alveg sammála um þetta. En þetta er lykilsetning hvað þetta varðar.

En aftur að þessari hækkun, að hækka persónuafsláttinn um 1%. Það eru 530 kr. á mánuði. Það er nú allt og sumt. Það er tiltölulega dýrt að hækka persónuafsláttinn, við vitum það, þetta fer upp allan skalann. En að hækka persónuafsláttinn um 530 kr. umfram það sem þarf að gera vegna laga, hann er tengdur við neysluverðsvísitölu, þýðir kannski gróflega reiknað 1.500 kr. hækkun á skattleysismörkum. Það er svona þumalputtaregla, þetta er samspil milli persónuafsláttar, skatthlutfalls og svo færðu út skattleysismörkin. Þetta er nú allt og sumt.

Þetta mun kosta ríkissjóð um 1,7–1,8 milljarða. Eins og ég gat um áðan er þetta um helmingurinn af því sem ráðherrann ætlar að taka af þjóðinni eða heimilunum með skattahækkunum annars staðar. Hann ætlar að hækka þessa klassísku skatta sem allar ríkisstjórnir gera, áfengisgjald, tóbaksgjald, bifreiðagjaldið, olíugjaldið, allar þessar vörur með óteygna eftirspurn sem er svo freistandi fyrir alla fjármálaráðherra að hækka. Frumvarpið sem hæstv. ráðherra mælir fyrir á eftir er um að hækka þau gjöld um 2,3 milljarða, um leið og hann er búinn að mæla fyrir þessu máli. Síðan er þriðja frumvarpið sem hæstv. ráðherra mun mæla fyrir seinna í dag, það mun taka um hálfan milljarð frá heimilunum því að þar er hann að hækka alls konar önnur gjöld, vegabréfið og allt þetta sem við borgum.

Gott og vel. Ég hef ekki verið feiminn við að tala um að ríkissjóður þurfi á tekjum að halda. Við þurfum að taka þá umræðu hvernig við eigum að fjármagna þá þætti sem við viljum fjármagna. Við eigum ekki að vera feimin við að tala um skattahækkanir. Stundum finnst mér eins og félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum haldi að peningarnir vaxi á trjánum. Þeir gera það ekki. Peningarnir verða til í atvinnulífinu hjá þjóðinni og ef við ætlum (Gripið fram í.) — já, einmitt — að fjármagna spítalana og skólana, fjármagna það sem þjóðin hefur verið að kalla eftir, þá þurfum við að hafa skattstofna til þess. Og við höfum bent á að á þessum tíma uppsveiflunnar og kannski ekki síst í fyrra og hittifyrra, eru tekjuúrræði ríkissjóðs vannýtt. Ég hef sagt úr þessum stól að aðhald er gott og ég átta mig á því og undirstrika að við gerum ekki allt fyrir alla. En aðhald er tvenns konar. Aðhald þýðir ekki bara að skera niður útgjöld eins og stundum heyrist. Aðhald getur líka falist í að nýta tekjutækifæri ríkissjóðs. Það eru ýmsar hugmyndir um það. Við höfum verið að tala um hvernig við getum fengið frekari tekjur af erlendum ferðamönnum. Mætti ekki hækka auðlindagjöldin? Hvað með fjármagnstekjuskattinn? Hvað með tekjutengdan auðlegðarskatt eða hvernig sem það er?

Ef þjóðin á að fá spítala og skóla og öryrkjar og eldri borgarar þær kjarabætur sem þeir eiga skilið þurfum við að fjármagna það með einhverjum hætti. En það kemur allt úr sama pottinum. Við getum ekki mætt kjósendum korteri fyrir kosningar eins og allir flokkar gera og lofað tugum ef ekki hundrað milljörðum í innviðauppbyggingu eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerði, það er enn þá á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, hann lofaði hundrað milljarða kr. innviðauppbygging fyrir síðustu kosningar. Auðvitað þarf að fjármagna það einhvern veginn. Hundrað milljarðar vaxa ekki á trjánum eins og ég gat um áðan.

Þessi sérkennilega forgangsröðun birtist hér m.a. í því að á sama tíma og ríkisstjórnin tímir að setja 1,8 milljarða í hækkun persónuafsláttar, tímir að setja 1,8 milljarða í að hækka lítillega barnabæturnar, þá er hún líka svo ofsalega örlát að lækka veiðileyfagjöldin um 3 milljarða. Hún er það örlát við þann hóp. Ég hef nú sagt til að stríða þeim aðeins að stórútgerðarmenn virðast ekki þurfa að fara í jafn mikla kjarabaráttu og ljósmæður þurftu að gera þegar kemur að þessari ríkisstjórn.

Ég tel að hér sé svigrúm til að auka auðlindagjöld. Þá lít ég ekki bara til sjávarútvegsins heldur líka til orkunnar og ferðaþjónustunnar. Þetta eru meginstoðir okkar atvinnulífs sem nýta sameiginlegar auðlindir. Þetta er áhugavert að setja þetta í samhengi.

Ég nefndi fjármagnstekjuskattinn áðan. Það er áhugavert atriði. Auðvitað veit ég að sá skattur er sveiflugjarn en árið 2019 á hann að skila 2 milljörðum kr. minna en fjármálaáætlun gerði ráð fyrir. Það eru tiltölulega fáir sem greiða fjármagnstekjuskatt. Af hverju er það? Vegna þess að þegar við vorum í ríkisstjórn, Samfylkingin, innleiddum við frítekjumark. Langflestir greiða engan fjármagnstekjuskatt, það eru tiltölulega fáir sem gera það. Ef við lítum bara á söluhagnað vegna sölu hlutabréfa þá voru það bara 2% fjölskyldna sem greiddu fjármagnstekjuskatt af þeim söluhagnaði. Þetta er þröngur hópur sem á miklar eignir. Ég ætla nú ekki að fara með mína tuggu um hvað 1% á mikið í þessu landi en það er ansi mikið. Það er þessi eignaójöfnuður sem blasir við. Tekjujöfnuður er meiri en víðast hvar annars staðar samkvæmt GINI-stuðlinum sem menn styðjast oft við. En ég hef ítrekað hversu eignaójöfnuðurinn er mikill.

Þetta er kannski nóg um tekjuskattinn og persónuafsláttinn. Ég kom í andsvari áðan inn á barnabæturnar. Við setjum 1,3% af ríkistekjunum í barnabætur. Það er nú allt og sumt. 99% af því sem hæstv. ráðherra hefur úr að spila fer í eitthvað annað. Mér finnst rík ástæða til að setja meira í barnabætur. Hér er dýrt að eiga börn. Við getum sett þetta í stærra samhengi líka. Fæðingartíðni hefur hrunið á Íslandi. Það er mjög merkilegt. Það er ekki svo langt síðan hér fæddust 4.600 börn á ári, nú fæðast um 4.000 börn, 4.100. Það eru margar ástæður fyrir því. Hlutfall ráðstöfunartekna ungs fólks sem fer í húsnæði hefur líka verið að hækka. Það er erfiðara að vera ungur í dag, erfitt að vera barnafólk í dag. Það hefur svo sem alltaf verið erfitt, ég veit það, en við þurfum ekki að gera það erfiðara.

Barnabætur eru góð leið til að ná til afmarkaðs hóps. Það er mjög heppileg leið. Sömuleiðis vaxtabætur. Ég veit að þær geta haft ýmsa ókosti, falið í sér hvatningu til skuldsetningar eða hvernig sem það er, en á meðan ástandið er svona á húsnæðismarkaðnum held ég að við eigum að nýta vaxtabæturnar sömuleiðis betur. Þær eru auðvitað bara niðurgreiðsla á kostnaði sem fólk verður fyrir vegna húsnæðiskaupa. Þetta eru úrræði bótakerfisins sem allar nágrannaþjóðirnar hafa nýtt í mörg ár. Að setja 3,4 milljarða í vaxtabætur er í stóra samhenginu innan skekkjumarka þegar um er að ræða 900 milljarða kr. sem eru til umráða hjá ríkisstjórninni. Af hverju er svo erfitt að fá ríkisstjórnina, alveg burt séð frá því hvort það eru hægri menn eða vinstri menn, til að treysta betur í sessi þessa tvo þætti? Það færi ekki allt á hliðina þótt við myndum tvöfalda barnabætur eða vaxtabætur. Ég er alveg sannfærður um það. Það þyrfti ekki einu sinni að vera það mikið ef menn treysta sér ekki í það.

Eins og ég gat um áðan í andsvari mínu snýst þetta svolítið um pólitík. Þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn voru settir 100 milljarðar samanlagt á kjörtímabilinu í vaxtabætur og barnabætur. Þetta er dæmi um að það skiptir máli hverjir stjórna. Þetta sýnir hverjir eiga forgang hjá þessari ríkisstjórn og hverjir ekki. Þetta frumvarp, og fjárlagafrumvarpið, sýnir að barnafólk, ungt fólk, öryrkjar og eldri borgarar eru ekki ofarlega á lista þessa fólks þegar kemur að því að útdeila úr sameiginlegum sjóðum okkar. Auðvitað veit ég að það er margt jákvætt í fjárlagafrumvarpinu en það sem við erum að gera er benda á það sem betur má fara, reyna að finna götin. Við erum kannski gagnrýnd fyrir að vera neikvæð en það er okkar hlutverk í stjórnarandstöðunni að reyna að finna annmarkana á þessum frumvörpum og reyna að hvetja þetta ágæta fólk, sem er ágætt, til góðra verka.

Ég get líka tekið undir það að ríkissjóður á ekki að vera einhver opinn tékki fyrir allt og alla. Það getur tekið langan tíma, eða einhvern tíma, að bæta það sem þjóðin þurfti að taka á sig eftir hrunið. Við tókum eins og einhver hv. þingmaður benti á í síðustu viku lán í innviðunum. Við vanræktum hina opinberu innviði. Og nú er bara komið að því að þegar ríkissjóður er sterkur, því hann verður ekkert alltaf sterkur, það eru blikur á lofti hvað það varðar, þá er tækifæri til að setja fé í þessa grunnþætti.

Þess vegna er það svo sárt að skilaboðin til öryrkja og eldri borgara séu: Þið þurfið að bíða enn eitt árið. Í frumvarpinu sem verður rætt seinna í dag er t.d. gert ráð fyrir að frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja verði óbreytt. Króna á móti krónu stendur enn þá. Það er einungis gert ráð fyrir þessum 4 milljörðum sem er bara einn þriðji af því sem króna á móti krónu afnámið myndi kosta. Þetta eru hlutir sem (Forseti hringir.) sem valda talsverðum vonbrigðum, að þessu sé ekki kippt í lag á meðan ríkissjóður hefur úr svo miklum fjármunum að spila og raun ber vitni.