149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:00]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held að við þurfum að fara svolítið varlega þegar við förum að krukka í svona vísitölum og við hvaða vísitölu við eigum að miða, eins og ég gat um hér áðan. Ef persónuafsláttur hefði verið miðaður við launavísitölu — ég held að ég fari með rétta tölu, mig minnir það — væri persónuafsláttur um 74 þús. kr. Hann er 54 þús. kr. í dag. Laun hafa hækkað mikið, það er ekkert leyndarmál. Launavísitala hefur hækkað talsvert meira en neysluverðsvísitalan. Þess vegna hefur þetta fyrirkomulag, þessi mismunandi tenging persónuafsláttar og viðmiðunarmarka tekna, verið gagnrýnt.

Ég hef þá tilfinningu að við séum að ganga inn í mjög erfitt efnahagsástand. Ég held að verðbólga fari hækkandi. Við sjáum ýmislegt sem bendir til þess. Þá snýst þetta auðvitað við, alveg rétt það sem hv. þingmaður var að segja. Mín tilfinning er sú að við höfum verið svolítið heppin með verðbólguna. Hin innflutta verðbólga hefur verið mjög lág, það hefur verið mjög lág verðbólga á evrusvæðinu. Vextir hafa verið sama sem núll á evrusvæðinu. Olíuverð hefur verið lágt. Þetta er allt að breytast. Vextir eru á uppleið, olíuverð á uppleið og innfluttar vörur eru að verða dýrari. Síðan er það blessaða gengið, gengi krónunnar, sem er bleiki fíllinn í öllu þessu samhengi. Raungengi krónunnar hefur sjaldan verið eins sterkt og núna. Nú hefur það verið að gefa eftir. Við sjáum að raungengi krónunnar lækkaði um 6–7% um daginn. Hvað þýðir það? Það þýðir, svona þumalputtaregla, að einn þriðji til helmingur af því fer í hækkun á innfluttum vörum. Ef raungengi krónu fellur um 6% hækkar seríósið og hveitið og bílarnir og allt sem við framleiðum ekki en flytjum inn um 3 prósentustig. Þetta er svolítið áhugaverð þróun. Það hefur síðan áhrif á verðtryggðu lánin okkar líka.

Ef við setjum þessar tölur í samhengi, 6% lækkun raungengis, 3% hækkun á innfluttum vörum, inn í verðtryggðu lánin — (Forseti hringir.) og hér er talað um að svigrúm við það að hækka laun sé um 4% — þá er það bara allt farið í þessu samhengi ef við skoðum þetta frá þessum sjónarhóli.