149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019, tekjuskatt einstaklinga, persónuafslátt, barnabætur, vaxtabætur og tryggingagjald, frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Í fyrsta kafla er byrjað á barnabótum. Ef maður horfir fyrst á það sem þar er stingur strax í augu hvenær skerðingar byrja. Skerðingar byrja strax við lægsta lífeyri, bætur og laun, og lægstu lífeyrisbætur og lágmarkslaun eru undir fátæktarmörkum samkvæmt núverandi mælingum. Eins og hefur komið fram er miðgildi tekna um 618 þús. þannig að 309 þús. kr. er 50% og allt þar undir er fátækt.

Annað sem er svolítið furðulegt í þessu er, og ég veit ekki hvort ég á að segja það, að það er eins og fjármálaráðherra sé að útbúa einhverja getnaðarvörn, fólk á bara ekki að eiga börn ef það er undir lágmarkslaunum eða á bótum eða lífeyri, því að það er verið að skerða þarna um 4%, síðan 6% með tveimur börnum og 8% með þremur börnum. Það er verið að refsa fólki fyrir að eiga börn. Ég hélt að það væri alveg þveröfugt sem við ættum að gera, við ættum að verðlauna fólk fyrir að eiga börn en alls ekki að refsa því á neinn hátt.

Það er með ólíkindum að enn í dag skuli vera byrjað að skerða barnabætur við svona rosalega lágar tölur, við fyrstu krónu. Hver er tilgangurinn ef ekki til að refsa? Ef við erum að tala um refsikerfi þeirra sem eru á lífeyri og bótum í dag er það með ólíkindum. Það virðist hafa verið fundið upp að skerða sem flest. Ef einstaklingur á lífeyrislaunum ákveður að fara til útlanda þá skerðum við hann, ef hann ákveður að taka út varasjóð frá verkalýðsfélagi þá skerðum við hann. Ég er búinn að vera að leita og ég finn alls staðar svona skerðingar. Ég er eiginlega hættur að leita að skerðingarpyttunum og farinn að leita að því hvar einstaklingarnir eru ekki skertir. Hvar er ekki ráðist á þá með sköttum og skerðingum?

Við vitum að sömu einstaklingar og við erum að ræða, sem eru á bótum, verða ekki feitir af 205 þús. kr. útborguðum.

Síðan er það persónuafslátturinn. Það er eiginlega saga til næsta bæjar að ég sendi inn fyrirspurn um hækkun á persónuafslætti, sérstaklega í sambandi við 1% lækkun neðra skattþrepsins, úr 37 í 36%, sem hefði átt að kosta um 14 milljarða. Það sem er merkilegt er að það hefði skilað, samkvæmt svari ráðuneytisins, 5.301 kr. hækkun persónuafsláttar. Það þýðir á mannamáli 15 þús. kr. meiri tekjur fyrir þá einstaklinga. En nei, ekki var það 15 þús., ekki var það 10% af þeim 15 þús. eða 1.500, nei, það voru 3% af því, 500 kall sem kom aukalega. Persónuafsláttur hækkaði um 533 kr. nákvæmlega.

Við verðum að átta okkur á því, og það kom upp í umræðunni, að persónuafsláttur ætti að vera um 75 þús. kr. miðað við launavísitölurnar. Ég tel það rangt. Frá 1988, þegar staðgreiðslan var tekin upp, borguðu lífeyrisþegar ekki skatt. Þeir borguðu ekki skatt og þeir áttu upp í lífeyrissjóðstekjur. Og lægstu laun voru skattlaus. En hvernig er staðan hjá þeim einstaklingum í dag? Ég skal upplýsa ykkur um það. Einstaklingur sem er á þeim allra lægstu tekjum sem eiginlega er hægt að hafa, sem eru útborgaðar 204.352 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins, borgar 34.242 kr. í skatt. Það er aukin skattbyrði.

Í því samhengi má benda á að í svari ráðuneytisins segir að það kosti 150 milljarða að koma skattprósentunni í 300 þús., þannig að 300 þús. verði skatta- og skerðingarlaust. Það er auðvitað algert bull, það kostar kannski um 40–60 milljarða í mesta lagi. En þá ætti ég að segja til baka við hæstv. fjármálaráðherra: Heyrðu, bíddu, eruð þið búin að skattleggja þá sem eru á lægstu bótum um 150 milljarða á þessu tímabili? Ég er viss um að hæstv. fjármálaráðherra er ekki tilbúinn til að samþykkja það.

En tökum áfram einstakling sem er með 204.352 kr. útborgaðar og borgar 34 þús. kr. í skatt. Hann er svo heppinn að hann fær 50 þús. kr. frá lífeyrissjóði — nei, hann fær 0 kr. Það eru skerðingar. Er þetta ekki skattur líka? Ef við tökum hin dæmin, um þá sem hafa eru komnir upp í 300 þús. kr. útborgaðar, hvað fá þeir? Jú, þeir fá 243.075 kr. útborgaðar og af því eru 56.925 þús. kr. skattur, sem hefði verið skattlaust fyrir 30 árum síðan.

Sömu einstaklingar hefðu líka fengið lífeyrissjóð, 50 þús. kr. — nei, hann er tekinn. Það er króna á móti krónu skerðing. Þannig að þessi einstaklingur borgar aukalega um 106 þús. kr. í skatt og skerðingar.

Það er annað í því dæmi sem er eitt af því ljóta sem hefur gengið yfir kerfið og viðgengst enn þá og það er króna á móti krónu skerðing gagnvart öryrkjum. Hún hefur verið síðan 1. janúar 2017. Það hefur viðgengist í að verða tvö ár. Eldri borgarar hafa sloppið við þetta en enn þá er slíkur skattur á öryrkja. Það sem er merkilegast við það er að ríkissjóður sparar sér nálægt 20–25 milljarða á því, vegna aukinnar skattbyrðar á þá sem ekkert hafa og eiga varla fyrir mat.

Ég ætla spyrja hvort hæstv. fjármálaráðherra sé stoltur af því. Eða stóð það alltaf til að sjá til þess að þeir ríku yrðu ríkari og þeir fátæku fátækari? Eins og hefur komið skýrt fram er persónuafsláttur fyrir þá sem hafa minnst á milli handanna, ekki bara 100% tekjur heldur yfir 100%. Fólk er að fá 80 þús. útborgað og það er ekki nema helmingurinn af persónuafslættinum. En fær það endurgreiddan mismuninn? Nei.

Þeir sem eru á 204 þús. kr. útborguðum, persónuafslátturinn hjá þeim er bara 75–80% af þeirra tekjum. En á sama tíma eru einstaklingar með 3 milljónir og kannski meira að fá nákvæmlega sama persónuafslátt. Þetta skiptir þá kannski 3–5%. Því eigum að breyta. Því eigum við að koma í lag. Við eigum að hætta að láta einstaklinga sem eru á lægstu bótum og launum borga skatta og skerða lífeyri. Persónuafslátturinn á að vera upphækkaður um 300 þús., ef rétt væri gefið, ef hann hefði verið uppfærður samkvæmt launavísitölu og rétt væri gefið. Auðvitað á hann ekki að ganga upp allan skalann, vegna þess að þeir sem eru á hæstu launum hafa enga þörf á því. Ég bendi ykkur á að fyrir rúmu ári síðan var ég á slíkum bótum. Ég var á bótum frá lífeyrissjóði, frá Tryggingastofnun ríkisins. Ég veit nákvæmlega um hvað ég er að tala. Að reka heimili og borga leigu og húsnæði er hreinlega pína og samt var ég ekki verst settur. Ég dáist að því fólki sem reynir að þrauka þarna úti og lifa af. Einstaklingur sem fær 204 þús. útborgað á að borga 185 þús. kr. í leigu. Við sjáum að dæmið gengur ekki upp.

Ég spyr: Erum við hérna í einhverjum fílabeinsturni? Sjáum við ekkert út fyrir hann? Erum við ekki í sambandi við fólkið þarna úti? Hvers vegna í ósköpunum látum við þetta viðgangast?

Það er til háborinnar skammar að á sama tíma gerum við tóma vitleysu í fjármálum; tvöföldum kostnaðinn við þingkaup, neitum börnum um læknisþjónustu sem þau þurfa nauðsynlega á henni að halda, ekki eru til krabbameinslyf. Hvað er í gangi? Þarf ekki að fara að stokka upp? Þurfum við ekki að fara að endurskoða alla okkar stefnu? Er ekki miklu mikilvægara að sjá til þess að fólk fái læknisþjónustu, lyf og geti lifað með reisn, heldur en að við séum í utanlandsferðum sí og æ og eyðum peningunum í eitthvað sem skiptir engu máli? Ég held að það sé kominn tími til og við eigum að sameinast um að sjá til þess að fólkið á Íslandi, allir, geti lifað með reisn. Allir.

Eins og ég segi eru hlutirnir settir undarlega upp og ég segi fyrir mitt leyti: Ég hefði ekki getað farið upp í þennan ræðustól eins og hæstv. fjármálaráðherra gerir og sagt: Ég ætla að vera rosalega góður við ykkur og hækka persónuafsláttinn aukalega um 1%. Ég ætla að gefa ykkur bestu gjöf allra tíma, 1%.

Á sama tíma hefur allt hækkað. Ég var að skoða hækkunarliði, allt sem á að hækka, RÚV, matur, allt. Ég var að reikna þetta út og þurfti ekki lengi að reikna, það er löngu búið að taka af hækkanir sem öryrkjar og eldri borgarar og aðrir á lífeyrislaunum eiga að fá og meira til. Það er með ólíkindum að verið sé að tala um prósentur í því tilfelli vegna þess að við eigum ekki að tala um þær. Við eigum að tala um krónur og aura og reikna út hvað það kostar fyrir fólk að lifa og hvað það fær við þær hækkanir sem er verið að boða núna. Það er verið að boða 4% hækkun á persónuafslætti. Það verður kannski 3% hækkun á heildarbótunum um áramótin. Þetta skilar 6–7 þús. kr. Eigum við þá ekki að reikna á móti hvað allar hækkanir kosta sem skella á þeim einstaklingum? Og sjáum krónustöðuna, reiknum þetta út. Haldið þið að fólk hoppi hæð sína í loft upp og sjái fram á bjartari tíma, að það geti farið að kaupa eitthvað annað en hrísgrjón í matinn? Ég efast um það.

Þetta er okkur til háborinnar skammar. Við erum rík þjóð og okkur ber skylda til að sjá til þess að allir hafi það gott, ekki bara fáir útvaldir.