149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:09]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það væri sannarlega jákvætt fyrir okkur ef við værum alltaf jafn sammála og við hv. þingmaður (Gripið fram í.) Við erum það reyndar mjög oft. Þetta er samt svo mikilvæg umræða. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessari umræðu með því að segja brandara. Það er gríðarlega mikilvægt að við þingmenn tökum loftslagsumræðuna föstum tökum og leitum og þorum að horfa til framtíðar. Auðvitað þýðir þetta erfiðar ákvarðanir, þetta þýðir að það þarf að beita hvötum, bæði jákvæðum og neikvæðum, til að ná þessum markmiðum. En staðreyndin er sú að við getum eiginlega ekki kvartað ef við horfum á heiminn og önnur lönd. Eins og ég sagði í fyrri ræði minni væri eiginlega bara vandræðalegt ef við gætum þetta ekki, á sama tíma og við förum um allan heiminn og montum okkur af því hvað við stöndum okkur vel. Ég held að lykillinn sé einmitt eins og hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu almenningssamgöngurnar og það eru orkuskiptin. En svo eru náttúrlega líka önnur verkefni sem eru mikilvæg og við höfum rætt hér. En ég held að númer eitt, tvö og þrjú sé að við séum óhrædd við að ræða þessi mál, hugsa út fyrir kassann og finna bestu mögulegu lausnirnar fyrir Ísland og þar með vonandi að hafa áhrif á umheiminn og leggja jafnvel þungt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að loftslagsbreytingum.