149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Ég verð að viðurkenna að ég get ekki slengt fram gögnum hér og nú sem sýna fram á það að þessi aðferð virki svona og önnur aðferð virki hinsegin. Hins vegar þykir mér það vera mjög mikilvægt að þegar einhver aðgerð eða hegðun kemur óhjákvæmilega niður á framtíð plánetunnar okkar og barnanna okkar þá eigi að vera dýrara að gera það.

Hv. þingmaður spyr t.d. hvaða áhrif þetta hafi, hver séu heildaráhrifin á útgjöld heimilanna sem er góð og gild spurning. Ég myndi segja að ef áhrifin eru mikil þá hlýtur það að vera í einhverju samhengi við að þá verði meiri aðsókn í eitthvað annað en það sem losar gróðurhúsalofttegundir, þegar það er í boði á annað borð. Það er mjög mikilvægt að það sé þannig. Ekki þannig að það komi mjög alvarlega niður á lífi fólks, en ógnin sem við stöndum frammi fyrir, loftslagsbreytingar, er af þvílíkri stærðargráðu að við verðum öll að fórna einhverju. Öll. Já, öll. Það er ekki sanngjarnt vegna þess að við erum ekki í sanngjörnum aðstæðum.

Að því sögðu er ég allur eitt eyra fyrir öllum betri leiðum til þess að ná þessu markmiði, vegna þess að ég heyrði ekkert í ræðu hv. þingmanns sem benti til þess að hann efaðist um markmiðið. Við hljótum öll að vinna saman að því markmiði sem virkar hvað best.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Ef kolefnisgjaldið hefur burði og er nógu sterkt til þess að koma niður á fjárhag einhvers, segir það sig ekki sjálft að þá hefur það bolmagn til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda að einhverju leyti?