149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann spurði sérstaklega hvort ég hefði aðrar leiðir. Ég er ekki sérfræðingur í þeim málum og ekki mitt að benda á aðrar leiðir í því, það er sérfræðinganna fyrst og fremst að koma með lausnirnar og hvernig best er að vinna að þeim. En þetta mál snýst frá mínu sjónarhorni séð á þann hátt að almenningi að við erum þarna að leggja á skatt, töluvert háan skatt, til þess að ná ákveðnum markmiðum. Svo kemur í ljós að ekki liggur ljóst fyrir hvort þetta gjald skili þeim markmiðum. Þess vegna þarf að rannsaka það betur. Það er fyrst og fremst minn málflutningur hér að það verður að liggja fyrir með óyggjandi hætti að skattlagning sem þessi beri tilætlaðan árangur. Það hefur komið fram, eins og ég hef sagt áður, að umhverfisráðherra getur ekki sagt með óyggjandi hætti að þetta gjald skili tilætluðum árangri. Það er áhyggjuefni.

Vissulega er líka áhyggjuefni sú náttúruvá sem við sjáum birtast æ ofan í æ vegna loftslagsbreytinga. En þess vegna þarf einmitt að rannsaka þetta til fullnustu. Ég hef ekki betri leiðir. Það er ekki mitt að koma með þær heldur fyrst og fremst sérfræðinganna. Ég vona svo sannarlega að hægt verði að sýna fram á það gjaldið komi til með að bera árangur. En a.m.k. ætti gjaldið ekki að vera svona hátt meðan það liggur ekki nægilega vel fyrir.