149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Áður en ég vík að aðalefni máls míns hér, vil ég bara nefna, vegna ummæla hv. þingmanns í minn garð hér áðan, að það var eiginlega ekkert í því sem ég tel hönd á festandi. Þannig að mér sýnist að þetta hafi nú verið meira svona af ætt skáldskapar.

Hv. þingmönnum er vitaskuld frjálst að láta sér í léttu rúmi liggja þegar það liggja fyrir alveg skýr svör af hálfu umhverfisráðherra um það að hann og ráðuneyti hans hafi ekki glögga mynd af áhrifum tiltekinnar stjórnarstefnu sem er fylgt. Hv. þingmönnum er líka algjörlega frjálst að láta sér í léttu rúmi liggja áhrif af tilteknum þáttum í stjórnarstefnu sem geta haft bagaleg áhrif fyrir heimili og atvinnufyrirtæki landsmanna. Þetta er hv. þingmönnum að sjálfsögðu frjálst og engar athugasemdir við það af minni hálfu.

Nú, ég hefði haldið að óhætt væri að vísa til ákvæða stjórnarskrár sem eru alþekkt og fjalla um þá sérstöku vernd sem hún veitir íslensku þjóðkirkjunni án þess að gerðar væru umtalsverðar athugasemdir, en ég skal ekki hafa fleiri orð um það.

Tilefni þess að ég vitna hér í frumvarp til fjárlaga 2019, það sem fram kemur á bls. 113, herra forseti, er að þar er fjallað um að fyrirhugað sé að hækka kolefnisgjald um 10% í ársbyrjun 2019 o.s.frv. Talið er að áform þessi auki tekjur ríkissjóðs um 550 milljónir kr. Síðan segir fimm eða sex línum neðar til upplýsingar, að breytingar á eldsneytissköttum leiði til þess að bensínverð á lítra hækki um 3,3 krónur o.s.frv. Áhrifin á vísitölu neysluverðs eru metin 0,05% til hækkunar.

Nú, það er ekkert vandamál fyrir mig að kannast við það að þessi tala er um breytingar á eldsneytissköttum en ekki bara kolefnisgjaldið. Það leiðréttist þá bara hér með. En ég ítreka og undirstrika að þetta atriði breytir engu um þann málflutning sem ég hafði hér uppi varðandi þau skaðvænlegu áhrif á hag heimilanna sem hljótast af því að þegar ríkissjóður sækir sér auknar tekjur, segjum til þarfra málefna eða vegna þess að hann er að rækja markmið eins og til að mynda í loftslagsmálum, að þá eru þessi áhrif þarna fyrir hendi. Þau hafa lagst þungt á heimilin og atvinnufyrirtæki landsmanna. Það eru staðreyndir og þær vega auðvitað misþungt í hugum einstakra manna. Það er ekkert við það að athuga. Í mínum huga vega þær mjög þungt, aðrir geta haft aðra sýn á þau efni og er það fullkomlega athugasemdalaust af minni hálfu.