149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[18:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég get að vissu leyti tekið undir það að ekki eigi að vera sjálfvirkni í gjaldahækkunum eða gjaldtöku, kannski einkum og sér í lagi af því að hér erum við með hækkanir sem hafa bein áhrif á vísitöluna. Ég vísa þá til umræðu sem fór fram hér fyrr í dag um það mál.

Engu að síður er það þannig að þegar hækkanir verða með svona löngu árabili þá hlaupa þær, eins og kemur fram í frumvarpinu, í stöku tilfella á tugum þúsunda. Oftast eru þetta einhver leyfisgjöld, dómsmálagjöld eða eitthvað þess háttar. Það kann að hitta menn illa fyrir þegar gjöldin hækka svona mikið á stuttum tíma og kannski er ákveðin ósanngirni í því að hækkanirnar gangi yfir með svona gleiðum bilum.

Það geta, eins og í þessu tilfelli, liðið allt upp í átta ár á milli hækkana og kannski einmitt í því tilliti velti ég því fyrir mér hvort einhver hluti þeirra ætti hreinlega að fylgja þessu eða þá að sett yrði á einhvers konar kerfi, skulum við segja, í ráðuneyti hæstv. ráðherra þar sem þessi mál eru þá, eins og ráðherrann kom sjálfur inn á áðan, sjálfvirk, klukkuð með tveggja til þriggja ára millibili.