149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:58]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Íhaldssemi er dyggð, já. Við höfum gjarnan verið stútfull af þeim dyggðum einhvern veginn í gegnum tíðina í alls konar lögum, regluverki og opinberum nefndum um hitt og þetta. Lengi framan af bjuggum við, og gerum raunar enn, við alls kyns höft sem ég kalla forræðishyggju þar sem ríkið hefur ákveðið ýmislegt, í eina tíð hversu stór hús við mættum byggja. Ég held að allar Flatirnar í Garðabæ séu 150 fermetrar af því að þá var einhver búinn að ákveða að það væri kjörstærð einbýlishúss fyrir fjölskyldu.

Í eina tíð mátti ekki flytja inn jeppa nema til þess fengist eitthvert leyfi frá einhverri haftanefnd. Ef ég man rétt átti einhvern tíma frjálsíþróttaliðið okkar í stökustu vandræðum með að verða sér úti um gaddaskó af því að ekki fékkst leyfi frá þar að lútandi nefnd. Er þessi blessaða mannanafnanefnd ekki bara enn ein myndbirtingin af þessum höftum sem ég held að við hv. þingmaður séum nokkuð sammála um að við viljum útrýma sem víðast?