149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:00]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni ræðuna. Ég ætla aðeins að leiðrétta endursagnir hans á minni ræðu. Hann var kannski ekki alveg með fulla athygli þegar hann hlustaði á hana vegna þess að honum leiddist. [Hlátur í þingsal.] Ég er líka íhaldsmaður, rétt eins og hv. þingmaður. Ég er örugglega meiri íhaldsmaður en hann. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að íslensk tunga er ekki safngripur og íslensk menning ekki heldur, hún verður ekki geymd á safni sem endanleg afurð, bara þarna komin og sett á eitthvert safn þar sem hún á að safna ryki. Ég held að íslensk tunga og íslensk menning þurfi að vera lifandi og þurfi að vera til og öflug í okkar daglega lífi. Sé ekki svo, heldur bara lögin ein (Forseti hringir.) er hætt við að hún deyi. Ég vil hafa sterkt þjóðminjasafn og ég vil líka hafa sterkt ríkisútvarp. (BN: … það alltaf.)