149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri nú á hv. þm. Þorsteini Víglundssyni að hann áttar sig á því að það er kannski einhverjum vandkvæðum bundið að stökkva í svona mikið frelsi. Þess vegna held ég að það sé rétt að fara betur yfir þetta.

Ég er nú þannig maður að mér finnst oft gott að stíga styttri skref en taka risastökk þegar við erum að breyta svona hlutum. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki til athugunar að snikka þetta eitthvað til og fara betur yfir þetta í staðinn fyrir að rjúka í þetta frelsi sem mun, eins og ég sagði í aðalræðu minni, skapa ýmis vandamál. Ég held að menn séu ekki búnir að hugsa til enda öll vandamálin sem kunna að fylgja þessari gerbreytingu sem sumir kalla frelsi. Er ekki bara í lagi að stíga smærri skref eins og ég hef lagt til með RÚV og áfengið? Þá er þetta miklu minna mál. Þá verður fólk ekki fyrir svona miklu sjokki. Hugsið ykkur sjokkið ef ÁTVR væri allt í einu ekki til. En ef við byrjuðum á því að leyfa öðrum að reka verslun við hliðina á ÁTVR. Eftir 20 ár segjum við kannski: Ef þessi verslun getur verið við hliðina á Bónus, af hverju má þetta ekki bara alveg eins vera inni í Bónus? Þá allt í einu finnst mönnum það kannski ekki stórt skref að fara bara með þetta inn í matvörubúðina.